Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Sigmundur Davíð hittir naglann á höfuðið

Undanfarið hafa reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar lagt nótt við dag í útreikningum sínum svo finna megi út hversu þungar klyfjar íslenskur almenningur getur borið vegna húsnæðislána sinna. Það er ekki ónýtt að geta reiknað fólk á besta starfsaldri til áratuga þrælkunar fyrir okrara á peningamarkaði. Þetta er ekki ólíkt aðferðum þrælahaldara fyrri alda, sem samviskusamlega reiknuðu matinn ofan í þrælana, svo ekki brysti þá vinnuaflið. Á endanum gerðu menn sér grein fyrir því að þrælahald var óhagkvæmt, en íslenskir stjórnmálamenn gerir sér enga grein fyrir því að verðtrygging og okurvextir eru að sliga vinnandi fólk í þessu landi. Verðtrygging og okurvextir eru þrælahald nútímans!!

Bandalag sósíalista og stórkapítalista er ekki nýtt af nálinni. Það hefur tíðkast áratugum saman innan Evrópusambandsins, sem sósíalistarnir í Samfylkingunni vilja koma Íslendingum inní, ásamt mönnum sem sigla undir flærðarflaggi, bæði í Vg og Sjálfstæðisflokki. Bandalagið felst í því að færa stórkapítalistunum fjórfrelsið á silfurfati, á sama tíma og sósíalistarnir geta að öðru leyti ráðskast með hagi almennings í þjóðfélagi sem smátt og smátt hættir að draga andann, meðan fjórfrelsið blívur.

Í eina tíð sungu Íslendingar: "Við gefumst aldrei upp þótt móti blási." Nú þarf ekki annað en létt andkul frá útlöndum og stjórnmálamennirnir gefast upp.

Á sama tíma og Bandaríkjamenn eru búnir að dæma sína fjárglæframenn í áratuga fangavist og selja meira að segja inniskóna þeirra á uppboði, eru íslensku stjórnvöldin að láta pína sig til að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Og íslensk alþýða mun blæða. Hún er ríkisstjórn mikilla afreka þessi "norræna velferðarstjórn", sem nú situr, eða hitt þó heldur.


mbl.is Sósíalistar og stórkapítalistar ná saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptir liturinn á bjarghringnum máli?

Nú eru rétt rúm tvö ár liðin frá því að íslenskir bankar fóru á hausinn og stjórnmálamenn tóku þá afdrifaríku ákvörðun að tryggja í topp allar innistæður í íslenskum bönkum. Þar með voru efnuðustu 5% Íslendingunum tryggðir fjármunir sínir á kostnað allra hinna. Samhjálp í reynd, eða hvað? Eðlilegt hefði verið í hruni sem hér varð (nánast allsherjarhrun) að einhver raunhæf tryggingarmörk hefðu verið sett til dæmis 50 - 100 milljónir á kennitölu. Til þess höfðu stjórnmálamenn ekki kjark og er þeim að vissu leyti nokkur vorkunn. Þetta eru önnur stærstu mistök íslenskra stjórnmálamanna á síðari tímum.

Nú, þegar við blasir að fjöldi fólks hefur fallið í sjóinn, svo notað sé líkingamál, stendur björgunarsveitin á hafnarbakkanum með öll sín tól og tæki og þrefar um það hvaða litur sé heppilegastur á bjarghringinn svo enginn drukkni. Slíkt verklag dugar ekki og ráðvilla við björgunaraðgerðir dugar aldrei. En þannig er nú verklagið hjá stjórnvöldunum samt sem áður.

Nú þurfa hinir betri og góðgjarnari menn að huga að ráðum eins og afnámi verðtryggingar og strax bakfærslu hennar til október 2008; bakfærslu dráttarvaxta frá sama tíma, því ef eitthvað er að marka fréttir þá eru 65% húsnæðislána almennings í vanskilum, misalvarlegum, sem þýðir að dráttarvextir tikka á fólki. Enginn rís undir dráttarvaxtaokrinu, sem hér hefur liðist alltof lengi. Mesti dráttarvaxtaokrari Íslands er sjálft ríkið. Auk þess er tími til kominn að huga alvarlega að upptöku Bandaríkjadals, eins og ágætir hagfræðingar hafa lagt til. Ef ekki verður gripið til ráða af þessu tagi munu Íslendingar innan örfárra ára skiptast í þrjár stéttir manna í þessu landi. Ríka, skulduga og öreiga. Hinir bjargálna munu smá saman hverfa, en félagsþjónustan eflast.

Gott og vel. Ef menn ætla ekki að bera gæfu til raunhæfra aðgerða í vanda sem á sér ekki hliðstæðu í síðari tíma Íslandssögu, þá mun aðeins eitt gerast: Til verður nýtt stjórnmálaafl, sem mun sópa til sín fylgi í því skyni að gera það sem þarf að gera, því stjórnmálamenn sem nú halda um valdataumana virðast meira að segja vanhæfir til þess að velja lit á bjarghringinn. Og margir spyrja sig hvort að stjórnarandstaðan sé nokkru skárri?

Þriðjungsfylgi er ekki óraunhæft fyrir kröftugt andófsframboð; það hafa þeir báðir sannað Jón Gnarr og Adolf Hitler, þótt ekki sé ég að bera þá saman.


mbl.is Útreikningar sem ekkert segja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband