Leita í fréttum mbl.is

Skiptir liturinn á bjarghringnum máli?

Nú eru rétt rúm tvö ár liðin frá því að íslenskir bankar fóru á hausinn og stjórnmálamenn tóku þá afdrifaríku ákvörðun að tryggja í topp allar innistæður í íslenskum bönkum. Þar með voru efnuðustu 5% Íslendingunum tryggðir fjármunir sínir á kostnað allra hinna. Samhjálp í reynd, eða hvað? Eðlilegt hefði verið í hruni sem hér varð (nánast allsherjarhrun) að einhver raunhæf tryggingarmörk hefðu verið sett til dæmis 50 - 100 milljónir á kennitölu. Til þess höfðu stjórnmálamenn ekki kjark og er þeim að vissu leyti nokkur vorkunn. Þetta eru önnur stærstu mistök íslenskra stjórnmálamanna á síðari tímum.

Nú, þegar við blasir að fjöldi fólks hefur fallið í sjóinn, svo notað sé líkingamál, stendur björgunarsveitin á hafnarbakkanum með öll sín tól og tæki og þrefar um það hvaða litur sé heppilegastur á bjarghringinn svo enginn drukkni. Slíkt verklag dugar ekki og ráðvilla við björgunaraðgerðir dugar aldrei. En þannig er nú verklagið hjá stjórnvöldunum samt sem áður.

Nú þurfa hinir betri og góðgjarnari menn að huga að ráðum eins og afnámi verðtryggingar og strax bakfærslu hennar til október 2008; bakfærslu dráttarvaxta frá sama tíma, því ef eitthvað er að marka fréttir þá eru 65% húsnæðislána almennings í vanskilum, misalvarlegum, sem þýðir að dráttarvextir tikka á fólki. Enginn rís undir dráttarvaxtaokrinu, sem hér hefur liðist alltof lengi. Mesti dráttarvaxtaokrari Íslands er sjálft ríkið. Auk þess er tími til kominn að huga alvarlega að upptöku Bandaríkjadals, eins og ágætir hagfræðingar hafa lagt til. Ef ekki verður gripið til ráða af þessu tagi munu Íslendingar innan örfárra ára skiptast í þrjár stéttir manna í þessu landi. Ríka, skulduga og öreiga. Hinir bjargálna munu smá saman hverfa, en félagsþjónustan eflast.

Gott og vel. Ef menn ætla ekki að bera gæfu til raunhæfra aðgerða í vanda sem á sér ekki hliðstæðu í síðari tíma Íslandssögu, þá mun aðeins eitt gerast: Til verður nýtt stjórnmálaafl, sem mun sópa til sín fylgi í því skyni að gera það sem þarf að gera, því stjórnmálamenn sem nú halda um valdataumana virðast meira að segja vanhæfir til þess að velja lit á bjarghringinn. Og margir spyrja sig hvort að stjórnarandstaðan sé nokkru skárri?

Þriðjungsfylgi er ekki óraunhæft fyrir kröftugt andófsframboð; það hafa þeir báðir sannað Jón Gnarr og Adolf Hitler, þótt ekki sé ég að bera þá saman.


mbl.is Útreikningar sem ekkert segja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Á núverandi vanda er bara ein lausn og hún er sú að forsetinn afturkalli umboð sitt til ríkisstjórnarinnar. Við krefjumst kosninga strax og þangað til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, verður forsetinn að skipa neyðarstjórn.

 

Hvað varðar tryggingu innistæða í bönkum, þá var hún gerð á kostnað erlendra kröfuhafa bankanna. Með skiptingu bankanna í gamla og nýgja, voru innistæðurnar færðar til nýgju bankanna, auk skulda til jafnvægis. Síðan kom ríkið með framlag til að skapa bönkunum eiginfé. Það var bara eiginféð sem kom frá ríkinu og það var háð stærð bankanna.

 

Framlag ríkisins til að skapa bönkunum eiginfé var umtalsvert, en almenn loforð um að innistæður í bönkum séu tryggðar er moðreikur. Á meðan Alþingi hefur ekki heimilað skilgreindar innistæðu-tryggingar, eru yfirlýsingar Steingríms marklausar.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 10.11.2010 kl. 21:58

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Leitt að þú skulir ekki skilja stjórnskipun Íslands Loftur. Ríkisstjórnin situr ekki í umboði forseta, heldur í umboði alþingis. Við getum auðvitað krafist kosninga, en á meðan ríkisstjórnin hefur meirihluta á þingi, geta hvorki ég, þú né forseti Íslands gert nokkuð í málinu.

Hún er eiginlega furðuleg þessi hugmynd margra að alþingi sé í rassvasa Ólafs Ragnars, þótt honum mislíki sjálfsagt ekki þessi ruglingur fólks.

Gústaf Níelsson, 10.11.2010 kl. 22:21

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

   

Gústaf, ég skil stjórnskipun Íslands fullkomlega, en ég hef efasemdir um þinn skilning. Fyrsta skrefið til skilnings er auðvitað að lesa Stjórnarskrána, en þar stendur:

 

»»15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.

 

»»17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.

 

»»24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir, að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.

 

Þessar greinar útskýra hvers vegna forsetinn getur hæglega tekið umboðið af Jóhönnu og boðað til kosninga. Hann getur jafnframt skipað þá ríkisstjórn sem honum sýnist.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 10.11.2010 kl. 23:42

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

Enn misskilur þú stjórnarskránna Loftur og er svo sem ekki skrítið því um sumt óljóst orðalag hennar gefur kannski tilefni til slíks.

En hvað segir segir 11. gr. hennar? Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Og hvað segir í 13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.  Og síðan í 14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. 

Af þessu má ráða að forseti hefur enga pólitíska stöðu, enda framkvæma ráðherrar vald hans og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum. Er ekki ástæðulaust að fjasa meira um þetta?

Gústaf Níelsson, 11.11.2010 kl. 11:20

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gústaf, forsetinn fer með eftirlit með stjórnkerfinu fyrir hönd almennings. Það er almenningur (þjóðin) sem er handhafi fullveldisins. Forsetinn fer því með vald í umboði þjóðar. Þar sem forsetinn lætur ráðherra um framkvæmd, þá ber ráðherrann eðlilega ábyrgð á framkvæmd stjórnarathafna. Leiðir ekki eðlilega af því, að forsetinn er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum ? Hvað vefst fyrir þér í þessu sambandi ?

 

 
11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. 13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. 

 

Eftir stendur að »forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn«. Jafnframt »skipar forsetinn forsætisráðherra og veitir honum lausn«.

 

Þetta liggur ljóst fyrir, auk þess sem einnig liggur ljóst fyrir að »forsetinn getur rofið Alþingi og stofnað til kosninga«.

 

Þess vegna getur forsetinn hæglega tekið umboðið af Jóhönnu og boðað til kosninga. Hann getur jafnframt skipað þá ríkisstjórn sem honum sýnist.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 11.11.2010 kl. 13:23

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaðir félagar hér að ofan.

Það er ekki inní stjórnskipan Íslands að forseti gangi gegn sitjandi þingi, og það á ekki þurfa að ræða það Loftur.

Forsetinn er jú bara maður í miðlungstóru húsi á miðju túni út á Nesi.

Þar sem forsetar beita sér gegn þingi, þá hafa þeir hervald á bak við sig.  Úr slíku dæmi kom Napóleon þriðji.  Hann var yfirmaður hersins og gat beitt honum.  

Eins gengur þingið ekki gegn réttindum forseta, þess vegna fékk til dæmis Hitler undirskrift Hindenburgs þegar hann leysti upp þingið, en hann var yfirmaður hersins.

Það sem ég er að benda á að menn þurfa skýra stjórnskipan eða vald til að framkvæma, þess vegna er talað um framkvæmdarvald.

En þetta er ekki kjarni í þrumugóðri grein Gústafs, ég notaði líka þetta orðalag í morgun, góðgjarnir menn, það er skorturinn á þeim sem skýrir ástandið.

Og Loftur, þínir menn ná ekki frekar að framkvæma þá stefnu að skilja suma eftir til að drukkna, þeir hafa ekki mátt til þess.  Rökfærsla Gústafs er ekki bara sterk, hún er rétt.

Á neyðartímum koma fram menn sem sameina, hinn möguleikinn er aðeins einn, upplausn og jafnvel borgarastyrjöld.  

Við erum á þeirri leið.

Og þar sem þú ert góðgjarn maður Loftur, þá áttu að íhuga rökin fyrir þeirri sammannlegu leið að bjarga öllum frá örbirgð, og koma með rök og dæmi um hvernig það er hægt.

Það er ekki flóknara en dollarakenning þín.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.11.2010 kl. 14:18

7 Smámynd: Gústaf Níelsson

Er ekki rétt að þú látir hana Jóhönnu vita Loftur, því ég er næstum því viss um það að hún gerir sér enga grein fyrir þessu. Auk þess  hygg ég að rétt sé að þú talir við alþingismennina alla með tölu og látir þá vita að hann Ólafur Ragnar geti sko sent þá heim á morgun því hann fari með vald í umboði þjóðarinnar og geti sent þá heim eftir geðþótta.

Eru einhverjir málsmetandi menn sem deila skoðunum með þér í þessu efni, Loftur? Og vel á minnst, með hvaða lögum var forsetanum falið eftirlit með stjórnkerfinu fyrir hönd almennings? Ekki bað ég hann, en þú?

Gústaf Níelsson, 11.11.2010 kl. 14:27

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég tel að Jóhanna viti að hún situr í skjóli forsetans. Það var forsetinn sem færði henni umboð til ráðherra-stólsins og það er hann sem getur tekið það aftur. Ef Jóhanna vill ekki viðurkenna þá stöðu, sem helgast af ákvæðum Stjórnarskrárinnar, þá ætti hún að rifja upp nýliðna sögu.

 

Jóhanna var algjörlega andvíg þjóðaratkvæði um Icesave-kröfurnar, en varð að sætta sig við að Stjórnarskráin réði. Jóhanna var algjörlega andvíg að ráðherrar sem sátu með henni í Hrun-stjórninni yrðu færðir fyrir Landsdóm, en hún varð að sætta sig við annað, vegna þess að um Stjórnaskrár-atriði var að ræði. Hún á sjálf eftir að verða dreginn fyrir Landsdóm og dæmd til mun harðari refsingar en félagi Geir H. Haarde.

 

Þeir sem lítilsvirða Stjórnarskrána geta auðvitað haldið fram hverju sem þeim sýnist. Þeir geta vísað til þess að Alþingismenn yrðu súrir, ef þeim væri sagt upp starfinu og boðað til kosninga. Við hinir höfum Stjórnarskrána til að styðja okkar mál og þar segir:

 

 
»»24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir, að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.
 

  

Ætlar þú Gústaf og liðsmaður þinn Ómar Geirsson, að halda því fram að forsetinn geti ekki rofið Alþingi, þrátt fyrir það sem stendur í Stjórnarskránni og núna fyrir framan nefið á ykkur. Ég læt öðrum um að finna viðeigandi heiti á slíka öðlinga.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 11.11.2010 kl. 17:00

9 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ekki veit ég hvort það þjónar nokkrum tilgangi að skiptast á skoðunum við þig Loftur um mál, sem þú berð lítið skynbragð á. En stundum hefur fólk sterkar skoðanir á því sem það hefur takmarkað vit á og skortir skilning á hugsuninni að baki.

Túlkun þín og skilningur á stjórnarskránni er auðvitað til marks um það að nauðsynlegt er að laga hana að þeim stjórnarháttum sem hafa jafnan verið praktíseraðir í samræmi við hana og anda hennar. Það hefur engum manni dottið í hug, nema þér, svo ég viti, að forseti færi með þingrofsvaldið nema að forminu til. Hefði forseti það vald í hendi að eigin frumkvæði, án atbeina ráðherra, væri auðvitað búið að afnema þingræði á Íslandi.

Allir vita að forsetinn, sá sem gegnir embættinu hverju sinni, er aðeins valdamaður að nafninu til. Eins konar toppfígúra, með svipaða pólitíska valdastöðu og konungar hinna Norðurlandanna. Það er enginn vilji til þess að breyta því, nema kannski hjá Ólafi Ragnari.

Gústaf Níelsson, 11.11.2010 kl. 17:52

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Láttu ekki svona Loftur, það er enginn í stríð við þig.

Staldraðu aðeins við og ímyndaðu þér í eina mínútu að Ólafur myndi rjúfa þing.

Ríkisstjórnin myndi strax tilkynna tilraun til valdaráns, og ríkislögmaður myndi skrifa undir það.

Hvað myndi Ólafur þá gera??

Láta Dorrit ryðja þingsali???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.11.2010 kl. 18:17

11 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er frumleg hugmynd hjá þér Ómar, að engir valdamenn virði Stjórnarskrána, vegna þess að almenningur hefur ekki her sér til varnar. Staðan er auðvitað ekki svona og það hafa atburðir undanfarinna mánaða sýnt. Jóhanna og Steingrímur hafa beygt sig fyrir fullveldi þjóðarinnar, þrátt fyrir andstyggilegan þráa.

 

Dettur þér virkilega í hug að ríkisstjórnin lýsi yfir valdaráni, þegar forsetinn rýfur Alþingi, sem hann mun gera innan skamms ? Auðvitað hundskast ríkisstjórnin til að hlýða, þótt það verði gert með ólund. Ef ríkisstjórnin verður með múður, mun almenningur taka í taumana og verja sitt fullveldi. Þetta eru bara staðreyndir málsins.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 11.11.2010 kl. 20:53

12 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þú fyrirgefur Loftur, en er lokað á öllum heilsugæslustöðvunum?

Gústaf Níelsson, 11.11.2010 kl. 21:42

13 Smámynd: Elle_

Ég verð að taka undir með honum Lofti hvað varðar 15. og 24 g. stjórnarskrárinnar.  Samkvæmt mínum skilningi og minni vitund, getur forseti rofið þing og vonandi gerir hann það innan skamms.  Samt er ég ekki lögmaður, hinsvegar liggur það í orðunum og skil alls ekki hvað málflutningurinn hans kemur heilsu hans við. 

Elle_, 11.11.2010 kl. 23:49

14 Smámynd: Gústaf Níelsson

Auðvitað var við því að búast að aðdáendur og dýrkendur Ólafs Ragnars létu á sér kræla í umræðunni. En skilningur þinn og vitund skiptir bara alls engu máli í samhengi umræðunnar, en auðvitað er réttur þinn til þess að hafa rangt fyrir þér stjórnarskrárvarinn, þótt skárra væri að dellunni væri haldið til hlés.

Vonandi er heilsan líka góð.

Gústaf Níelsson, 12.11.2010 kl. 00:05

15 Smámynd: Elle_

Skil ekki illskuna og uppnefnin í pistlahöfundi.  Síðan hvenær er ég dýrkandi nokkurs manns??  Nei, þessu geturðu ekki klínt á mann. 

Það sem ég skrifaði að ofan, kemur ekki persónu núverandi forseta neitt við og ekki heldur neinni dýrkun minni á Lofti við, ef þú skyldir nú ætla að fara að segja það næst.  Heldur var ég að lýsa orðum sem standa í stjórnarskránni. 

Kjósir þú að vera andstyggilegur hinsvegar við menn sem ekki lesa stjórnarskrána nákvæmlega eins og þú, verður það að kallast þitt vandamál.  Það kemur hvorki dýrkun minni á neinum né stjórnarskránni við þó þú þolir ekki skoðanir manns.  Vissulega kemur minn skilningur og vitund umræðunni við, ekki síður en þinn skilningur.   

Elle_, 12.11.2010 kl. 00:27

16 Smámynd: Gústaf Níelsson

Já, mér sýnist að kanna þurfi hvort Jóhönnu og Steingrími takist ekki að halda bráðavaktinni opinni í norræna velferðarríkinu. Er ekki örugglega opið?

Að vísu þoli ég alveg skoðanir þínar, en þær eru rangar. Og mín vegna máttu alveg hafa rangar skoðanir og auðvitað er mér hlýtt til þín. Skárra væri það nú.

Gústaf Níelsson, 12.11.2010 kl. 00:40

17 Smámynd: Elle_

Orðin standa svart á hvítu í stjórnarskránni.  Hafa lagaprófessorar túlkað þau öðruvísi?

Elle_, 12.11.2010 kl. 00:48

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Kæra fólk, það er skynsamlegra að láta gufuna fara út um eyrun, en puttana.

Loftur, þú ert að taka undir það sem ég er að segja, ef þú hugsaðir þig um í eina mínútu. "Ef ríkisstjórnin verður með múður, mun almenningur taka í taumana og verja sitt fullveldi".  Þú ert að lýsa ákveðinni tegund valdboðs.  Sem er nauðsynleg forsenda þess að valdhafi geti framkvæmt, sbr framkvæmdarvald.

Hið opinbera framkvæmdarvald er hjá ríkisstjórninni, lögregla og almannavarnasveitir lúta henni.  Ef almenningur myndi skilja stjórnarskrána eins og þú, þá er lýsing þín rétt, ríkisstjórnin væri að fremja valdarán ef hún gengi gegn forsetanum.

En Loftur, almenningur gerir það ekki, um þetta ríkir vafi svo ekki sé meira sagt, og "persónutöfrar" Ólafs myndu ekki duga til.

En ég er sammála þér að við ákveðnar aðstæður gæti Ólafur gripið til þessa ákvæðis, og það er sett þarna til að glíma við þær aðstæður.  

Og þær aðstæður er þegar stjórnleysi blasir við.

Loftur, ef okkur hefði tekist að viðhalda reiði almennings, jafnvel bæta við hana, þá værum við með atburðarrás þar sem þetta væri raunhæfur möguleiki, en okkur tókst það ekki.

Meginskýring þess er að þínir menn skáru ríkisstjórnina úr snörunni.  Þeir gleymdu því sem þeir sögðu sumarið 2009,

"Í efnahagstillögum okkar sjálfstæðismanna er lagt til að myndaður verði þverpólitískur hópur með fullt rúm allra stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila til að vinna tillögur að hvernig standa megi að niðurfærslu skulda. Þetta var gert af ofangreindum ástæðum – til að mynda sátt og samstöðu. ".

Þetta skrifaði þingmaður Sjálfstæðisflokksins haustið 2009.  

Þetta var snaran um háls ríkisstjórnarinnar, og núna er hún laus úr henni.

Ólafur mun ekki taka slaginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2010 kl. 08:18

19 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það hefur verið sagt um suma, að þeir taki höndina ef þeim er réttur fingurinn. Ég sagði í viðauka:

 

Ef ríkisstjórnin verður með múður, mun almenningur taka í taumana og verja sitt fullveldi.

 

Þetta er auðvitað ekki megin málið, heldur hitt:

 

Dettur þér virkilega í hug að ríkisstjórnin lýsi yfir valdaráni, þegar forsetinn rýfur Alþingi, sem hann mun gera innan skamms ? Auðvitað hundskast ríkisstjórnin til að hlýða, þótt það verði gert með ólund.

 

Ég er ekki sömu skoðunar og þú Ómar, að ofveldi (ofbeldi) sé nauðsynlegt til að landsmenn hlýti Stjórnarskránni. Eins og ég hef rækilega minnt á, þá hefur valda-aðallinn ítrekað beygt sig fyrir ákvæðum Stjórnarskrárinnar á síðustu mánuðum. Ef einhvers staðar er að finna hugrekki í þessu landi, þá er það hjá almenningi og ef á þarf að halda – ef á þarf að halda mun almenningur verja Stjórnarskrána.

 

Það er mikill misskilningur hjá þér Ómar, að almennt þurfi ofveldi til »að valdhafi geti framkvæmt«. Horfir þú á sömu hryllingsmyndirnar og Jón G.Narri ? Um Stjórnarskrána ríkir almenn sátt, þótt einstaka menn eins og Gústaf Níelsson hafi allt á hornum sér. Sá maður virðist ekki hafa annað til málanna að leggja en hrakyrði.

 

Ómar, ekki er hægt að tala um fullveldi þjóðarinnar á jafn lauslátan hátt og þú gerir. Allt vald í samfélaginu kemur frá þeim sem hefur fullveldið, þjóðinni sjálfri. »Opinbert framkvæmdavald« á sér ekki sjálfstæða tilveru, heldur kemur það frá fullveldishafanum og ekki kemur til álita að þjóðin afsali sér fullveldinu.

 

Alrangt er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skorið ríkisstjórnina úr snörunni. Það eru Vinstri-Grænir sem viðhalda lífi Icesave-stjórnarinnar og ef stjórnin hrökklast frá fyrir lok kjörtímabilsins, þá verður það vegna ákvarðana V-G.

 

Almenningur hefur ekki meiri möguleika en Sjálfstæðismenn, að hrekja stjórnina frá völdum. Sossarnir eiga í erminni blekkingar við hverri hrinu mótmæla. Ég er farinn að halda, að við verðum að þrauka út kjörtímabilið !

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 12.11.2010 kl. 11:04

20 identicon

Eftir mikinn lestur hér að ofan, þá er það minn skilningur að þegar Jóhanna sagði við Bjarna Ben og Sigmund Davíð að þeir eigi bara að bera upp vantraust tillögu á Ríkisstjórnina, staðfesti hún grun minn um það að alþingi er það eina sem getur komið Ríkisstjórninni frá. Annars hefði hún bent þeim á að tala við Ólaf Ragnar. Er ekki alþingi löggjafarsamkunda okkar Íslendinga, er ekki þingræði hér á landi ? Spyr sá sem ekki veit.

Jón Ellert Tryggvason (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 12:47

21 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Jón Ellert, varla telur þú að Jóhanna óski eftir að missa ráðherrastólinn ? Hún ögraði stjórnarandstöðunni á Alþingi,að bera upp tillögu um vantraust, vegna þess að hún hefur tryggingar fyrir stuðningi V-G. Hún nefndi ekki forsetann, vegna þess að hún vill halda í stólinn hvað sem það kostar þjóðina.

Þingræði merkir að Alþingi fer með löggjafarvaldið, í umboði almennings sem fer með fullveldið. Þess vegna nefnist stjórnarfarið lýðveldi, að fullveldið er hjá lýðnum. Þar sem konungur fer með fullveldið er stjórnarfarið nefnt konungsveldi. Einfalt ekki satt ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 12.11.2010 kl. 13:37

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Loftur, þú ert greinilega búinn að íhuga það sem ég sagði, og átt ekki rök gegn því.

Ég lýsti staðreyndum, ekki mínum skoðunum. 

Það skiptir engu máli hvað ég held eða þú, ef stjórnarskráin er ekki skýr, þá reynir á túlkun.  Og ég benti þér á aðstæður sem hefðu gefið þessari túlkun vægi.

En með samstilltu átaki, Andstöðunnar og stjórnarandstöðunnar, þá náðum við tæplega tíuþúsund á Austurvöll.  Þú mátt hafa þínar skoðanir á hlut þíns flokks, eina sem þú glatar er þín þekkta sjálfstæða hugsun, en í dag fáum við aðeins tugi, í mesta lagi hundruð.

Þar með er framkvæmdarvaldið hjá þeim sem með það fara. 

Og það skiptir engu hvað þú kallar mig eða aðra, sjálfan þig eða þjóðina, Ólafur fer ekki gegn stjórninni.

Þannig er það bara Loftur, þannig er það bara.

En þér að segja, þá gaf guð þér mikið vit, og ef þú nýtir það í að raungera þá hugsun sem ég peistaði þér að ofan, þá stæði Jóhanna höllum fæti.

En þegar þið gáfuð Pétri völdin, þá gáfuð þið frá ykkur aðgreininguna, þið hljómið eins og Samfó.  Gylfi/Pétur, sömu rökin, og sama hatrið gegn þeim sem misstu allt sitt.

En þið áttuð val Loftur.

Og það er ekki mér að kenna að þið nýttuð það ekki, þó ég sé sá sem bendi þér á það.  Og einn dag munt þú sjá að ég hafði rétt fyrir mér.

Núna eruð þið Sossaflokkur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2010 kl. 17:42

23 identicon

Þjóðstjórn strax ,,vinstri tilrauninn mistókst!!!!

Eftir situr stoltið eitt eftir.!!!!En almenningur með tóma vasa  og æ hærri reikninga.

droplaugur (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 06:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband