Leita í fréttum mbl.is

Ber að setja skoðana- og tjáningarfrelsinu skorður á grundvelli stéttar og stöðu?

Þessi grein eftir mig birtist í tímaritinu Þjóðmálum (1. hefti, 8. árg. vor 2012).

Flestir myndu svara þessari spurningu neitandi og jafnvel segja hróðugir, að hið sama ætti að gilda um þjóðerni, litarhátt, ætt og uppruna, kynhneigð, trúarbrögð og jafnvel bæta við fötlun, offitu, geðveiki og drykkjuskap, svo öllu réttlæti væri nú fullnægt. En allur augljós einfaldleiki er að víkja úr löggjöf okkar í þessu efni smátt og smátt, og hin flóknu atriði hártogunar að taka við.

Í 72. gr. lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 segir: „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða." Klippt og skorið og öllu sæmilega læsu fólki auðskilið. Þessi grein var samhljóða 54. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874, en hún var þýðing á 86. gr. dönsku grundvallarlaganna frá 1866, sem átti fyrirmynd sína í 11. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar frönsku frá 26. ágúst 1789.

Þessi regla um hugsun, skoðun og tjáningu gekk með miklum ágætum á Vesturlöndum langt fram eftir 20. öldinni, þótt hún hefði átt í vök að verjast þar sem kommúnistar og önnur stjórnlynd stjórnmálaöfl komust til valda. Vantaði þó ekkert upp á mannréttindakaflana í stjórnarskrám ríkjanna sem þeir stjórnuðu. Hornsteinn hinnar frjálsu hugsunar, skoðunar og tjáningar var lagður af franska heimspekingnum Voltaire með orðunum, sem ævisöguritari hans endursagði: „Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það." Þessi meitluðu orð eru afdráttarlaus, þótt við höfum sjálf sett okkur skorður eða þá löggjafinn eftir atvikum, af ástæðum trúnaðar, velsæmis og kurteisi. Þannig ætti öllum að vera það ljóst að lækni eru ekki settar málfrelsisskorður þegar lög heimila honum ekki að tala opinberlega um vandamál skjólstæðinga sinna. Samskonar reglur gilda um margar aðrar starfsstéttir. Þetta virðist þó sálfræðingur norður í landi ekki skilja, ef eitthvað er að marka skrif hans í vikublaðið Akureyri fyrir skömmu.

Seint á 20. öld taka menn upp á því að finna hugvitsamlegar aðferðir til þess að setja tjáningarfrelsinu skorður. Þess sér stað í stjórnarskrábreytingu frá 1995, en þá umorða menn lítilsháttar fyrrnefnt stjórnarskrárákvæði frá 1944 og bæta við: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum." (73.gr. núgildandi stjskr.) Skorðurnar á tjáningarfrelsinu, sem rötuðu í íslensku stjórnarskrána 1995 eru auðvitað evrópsk upphefð, sem kann að opna flóðgáttir heimskulegra málaferla um mörk tjáningarfrelsisins. Í stað þess að styðjast við þá ágætu reglu að allar skoðanir og hugmyndir skuli glíma á markaðstorgi hugmyndanna var fundið upp á því að sumar skoðanir væru óæskilegar, uppfullar af fordómum, meiðandi og særandi. Búið var að uppgötva fórnarlambið sem ríkisvaldið þurfti að verja. Vel kann það að vera rétt að einhverjum þyki sér misboðið vegna skoðana annarra, en hvaða kröfu á slíkur aðili á opinberri vernd, sem í sinni ýktustu mynd getur kallað yfir aðra atvinnumissi og fangavist? Alls enga. Aldrei myndi mér detta í hug að krefjast þess að tjáningarfrelsi annarra yrði takmarkað, svo að mér kynni að líða betur, eða vera rórra í sálinni. Tjáningarfrelsi hinna ólíku sjónarmiða hlýtur að vera gagnkvæmt. Með öðrum orðum – ég get alltaf svarað fyrir mig, sé að mér sótt.

Nú hefur hið ómögulega gerst, að nafntogaður kennari norður á Akureyri, Snorri Óskarsson, jafnan kenndur við Betel, er settur í leyfi af skólayfirvöldum, á grundvelli skoðanna sinna og tilvísana í Biblíuna, vegna þess að einhverjum mislíkar við skoðanir hans á samkynhneigð, sem hann viðrar á bloggsíðu sinni. Þúsundir annarra Íslendinga tjá skoðanir sínar um allt á milli himins og jarðar á bloggsíðum og er óhætt að segja að margbreytileikinn í skoðunum sé undraverður, en sýnir um leið hvernig umburðarlynd frjálslyndishefð í lýðræðisríki fær notið sín. Ísland líkt og önnur frjáls ríki hefur meiðyrðalöggjöf og setur í lög ýmsar skorður við ónærgætni í samskiptum fólks, þótt ekki setji það tjáningarfrelsinu takmörk. Óhætt er þó að segja að skoðun Snorra á samkynhneigð sé lítt til vinsælda fallin nú á tímum, að minnsta kosti opinberlega. Það eru engar ýkjur að samkynhneigð hefur um aldir verið litin hornauga og fólk jafnvel þurft að gjalda fyrir hana með lífi sínu. Vonandi eru þeir tímar að baki og eiga ekki afturkvæmt. Hins vegar mun samkynhneigðin eftir sem áður verða tilefni spaugsyrða og gamanmála, ef að líkum lætur.

 Nú er ekki meiningin að ræða hér kosti og lesti samkynhneigðar, heldur hitt hvort mönnum leyfist að hafa skoðun á henni og hvort að setja beri því skorður hverjir megi hafa skoðun. Nú er því ekki til að dreifa í máli Snorra að fjöldahreyfing á meðal foreldra barna í Brekkuskóla á Akureyri, þar sem hann hefur kennt í tíu ár, hafi gert kröfu um brottvikningu hans úr starfi vegna afstöðu hans til samkynhneigðar, sem hefur þó verið kunn um langt árabil. Heldur hefur því verið haldið fram að málið hafi flokkspólitískan fnyk, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Árni Johnsen, alþm. brást til varna fyrir Snorra úr ræðustól alþingis og sagði að hér væri á ferðinni árás á hann að undirlagi Samfylkingarinnar. Enginn dómur skal lagður á þessa afstöðu hér, en óneitanlega vekur það nokkra athygli að þeir menn, sem mest hafa haft sig í frammi í þessu máli verma báðir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.

En hvað sagði Snorri í bloggfærslu sinni sem varð til þess að hann verðskuldaði leyfi frá störfum úr hendi skólayfirvalda, á launum frá skattgreiðendum? Kálfshjarta hinna óttafullu fulltrúa pólitíska rétttrúnaðarins brast við þessi ummæli: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg." Dæmi nú hver fyrir sig. Má ætla, að séu orð af þessu tagi grundvöllur brottrekstrar úr vinnu, að fjöldi fólks í opinberri þjónustu þurfi að afsala sér stjórnarskrárvörðum rétti sínum til frjálsrar tjáningar og skoðanaskipta? Blasir það ekki við? Af yfirlýsingu frá Akureyrarbæ, sem send var fjölmiðlum í kjölfar brottvikningar Snorra, má ráða að tjáningarfrelsi hans hafi verið á skilorði hjá ráðamönnum bæjarins, en í yfirlýsingunni segir meðal annars: „Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust og hart við þeim ummmælum sem nú eru til umræðu." Það er engum vafa undirorpið að skólayfirvöld líta svo á að Snorri, og þá líklega allir starfsmenn bæjarins, megi alls ekki hafa skoðun á samkynhneigð, nema þá til að lofa hana og prísa. Þetta er álíka vitlaust og löggjöfin sem bannar fólki að tala um tóbak, nema illa.

Höfuðröksemdin gegn sjónarmiðum Snorra er sú að hann sé að kenna börnum á viðkvæmum aldri og þroskaskeiði. Gott og vel. En hvernig á kennari í grunnskóla að bregðast við ef samkynhneigð ber á góma í kennslustund? Á hann að segja við bekk sinn að hann megi ekki ræða þetta, enda komi fólk frá Samtökunum 78 í skólann til þess að leiða nemendur í allan sannleikann um fyrirbærið; eða á hann að skýra málið og geta þess að deildar meiningar og ólíkar skoðanir fólks á samkynhneigð séu til staðar, auk þess sem flest trúarbrögð líti hana hornauga og fordæma, en veraldarhyggja nútímans leggi blessun sína yfir hana? Sannleikurinn er sá að það er beinlínis háskalegt að taka tjáningarfrelsið frá kennarastéttinni, því það er sú stétt, sem á að draga fram andstæð viðhorf um allt á milli himins og jarðar í mannlegu samfélagi, tefla fram andstæðum viðhorfum og rökræða þau. Slík nálgun býr börn best undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. En vandinn er jafnan sá að „óvinir frelsisins rökræða ekki – þeir skrækja og skjóta."

Í þessu samhengi vakna ýmsar áleitnar spurningar. Hvað er eðlilegt að ræða við grunnskólabörn og fræða um í grunnskólum? Er eðlilegra að fræða um samkynhneigð en til dæmis klám og vændi eða kristindóm? Hvaða spurningar og álitamál má bera upp í skólastarfi yfirleitt? Hvaða skoðanir mega kennarar hafa og hverjar ekki? Við spurningum af þessu tagi er ekki til neitt einhlítt svar, en mikilvægt er að hafa í huga að umburðarlyndið er einn af hornsteinum hins frjálsa samfélags og ástæðulaust að láta pólitískan rétttrúnað grafa undan frjálslyndishefð lýðræðisríkisins Íslands. Með því að reka kennara úr starfi fyrir skoðanir sínar, taka menn að feta brautir, sem geta bara endað í öngstræti

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Aldeilis frábær grein, eins og talað út úr mínu hjarta. Sjálfur hef ég raunar skrifað í Þjóðmál um efnið. Pólitísk rétthugsun er mesta ógnin sem steðjar að frjálsum þjóðfélögum samtímans, og ekki þarf að taka fram, að þeir sem boða hana af mestum ákafa er fólkið, sem gekk, ýmist leynt eða alveg ljóst, erinda alræðis og gúlags í kalda stríðinu, með öðrum orðum vinstri menn. Sama fólkið sem lýkur helst ekki sundur munni án þess að hrópa hátt um „lýðræði“ og „mannréttindi“.

Vilhjálmur Eyþórsson, 17.3.2012 kl. 22:18

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þakka þér undirtektirnar Vilhjálmur. Sjónarmið okkar í baráttunni við alræðishugarfarið fara mjög saman.

Gústaf Níelsson, 17.3.2012 kl. 23:00

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir með Vilhjálmi, þörf og vel skrifuð grein. Þakka þér Gústaf.

Ragnhildur Kolka, 18.3.2012 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband