Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Sannleiksnefnd Alþingis

Það er vonum seinna að Alþingi skipi með lögum sannleiksnefnd, sem hefur með yfirgripsmiklu erindisbréfi það hlutverk að leita "sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða". Að vísu liggur þetta fyrir í aðalatriðum, en engu að síður sjá alþingismenn ástæðu til þess að eyða nokkur hundruð milljónum af skattfé í þessu skyni. Væntanlega til að róa liðið.

Við fengum að sjá formann þingflokks Samfylkingarinnar í sjónvarpinu í kvöld lýsa yfir því að hér væri "brotið í blað"og aldrei hefði neitt af þessu taginu bara gerst í þingsögunni áður. Hinum kappsfulla þingflokksformanni yfirsást í öllum hamagangnum að Alþingi samþykkti á aðfangadag (svo mikið lá við) 1985 lög um rannsóknarnefnd í málefnum Útvegsbankans og Hafskips. Lítið bitastætt kom út úr starfi nefndarinnar og svo óheppilega vildi til að niðurstöður hennar láku til fjölmiðla áður en þær voru afhentar þinginu.

Vonandi hendir ekkert slíkt sannleiksnefndina


Íslenskt Guantanamo?

Réttarríkið er viðkvæmt fyrirbæri og alls ekki sjálfgefið að það haldi velli þegar lýðskrumarar stjórnmálanna taka sig til og vilja breyta reglum þess í nafni réttlætisins. Slíkt réttlæti hefur tilhneigingu til að breytast í ranglæti, eins og sagan kennir okkur. Réttarríkið hefur margoft þurft að láta í minnipokann. Kunn eru afdrif þess í Þýskalandi nazismans og kommúnisma Austur-Evrópu og ætluðu menn þó að byggja réttlátt þjóðfélag. Allt snerist það í andhverfu sína.

Hinn ástsæli fjölmiðlamaður Egill Helgason bísnast yfir því á bloggi sínu, að kunnur lögmaður haldi uppi vörnum fyrir réttarríkið, í stórviðrum samtíðar okkar, og vari við vanhugsuðum lagasetningum, þar sem hefðbundnar leikreglur réttarríkisins eru teknar úr sambandi. Er engu líkara en að Egill hvetji til þess að íslensk stjórnvöld komi sér upp sínu eigin Guantanamo, þar sem stöndugu fólki er safnað saman, það lokað inni og tilkynnt að síðar verði rannsakað hvort iðjusemi þess varði við lög. 

Það hefur verið blettur á bandarísku réttarfari að halda árum saman, án ákæru, hundruðum meintra hryðjuverkamanna  í fangabúðum í Guantanamo á Kúbu. Réttilega hefur framkvæmdin verið harðlega gagnrýnd. Nýr forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur lýst yfir því, að búðunum verði lokað. Hann kann að eiga í vanda með að skila föngunum til síns heima, því einhverjir voru bara teknir á götuhornum á leið út í búð. Kannski þarf hann að setja á laggirnar skilanefnd.

Maður þakkar sínu sæla að menn á borð við Egil Helgason fara ekki með pólitísk völd núna þegar það gefur á bátinn; nóg er nú af flónunum samt.


Hagfræðingur með vit á stjórnmálum?

Það lýsir miklu pólitísku innsæi Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings, að draga þá ályktun af niðurstöðum skoðanakönnunar, að hér á landi ríki stjórnmálakreppa og ríkisstjórnin eigi því að víkja.

Þorvaldur, sem mér hefur alltaf þótt skemmtilegur og áheyrilegur, hefur verið manna ötulastur að hvetja til þess að menn sýsluðu við það sem færi þeim best og þeir hefðu eitthvert vit á. Hagfræðin hefur kannski ekki farið honum sérlega illa, en stjórnmálin greinilega síður.

Þótt nú um stundarsakir sé tími upphlaupsmannanna, eru formenn stjórnarflokkanna þó sammála um það að varhugavert sé að stofna til stjórnmálaóvissu ofaná efnahagsvandræðin, sem þarf að greiða úr. Allt hófsamt, velviljað og raunsætt fólk tekur undir það.


mbl.is Stjórnmálakreppa ríkir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að Ólafi Ragnari og heiðri forsetafrúarinnar?

Það er nú meiri aðförin, sem liggur í þagnargildi árum saman og ekki er upplýst um fyrr en í bók um Bessastaðaparið, eftir sérlegan ævisöguritara. Og í hverju liggur nú aðförin, jú í því að forsætisráðherrann skyldi leyfa sér að hafa uppi efasemdir um lögmæti hjónabands Dorritar og Ólafs Ragnars, en þær byggðust á því að frúin hefði ekki lagt fram gilt opinbert vottorð um hjúskaparstöðu sína, sem lög þó standa til.

Slík vottorð þurfa þó allir að leggja fram óháð stétt og stöðu og gildir jafnt um Dorrit og Ólaf Ragnar, sem annað fólk. Þau eru ekki hafin yfir lögin, þótt þau kannski haldi það og óþarft að móðgast þótt á það sé kurteislega bent.

Ljúfmennið Guðmundur Sophusson, sýslumaður, sem framkvæmdi athöfnina hafði greinilega ekki brjóst í sér til þess að skemma þá gleði og ánægju ástfangna parsins, að ganga í hjónaband á sextugsafmæli Ólafs Ragnars 14. maí 2003, þótt öllum skilyrðum laga væri ekki fullnægt þá er dagurinn rann upp. 

Hér var syndgað upp á náðina í trausti þess að forminu yrði fullnægt síðar. En ævisöguritarinn hefði augljóslega átt að nota önnur orð en "aðför" í þessu samhengi, þótt orðið sé krassandi í augnablikinu og benda þess í stað á það að forsætisráðherrann hefði haft réttmætar áhyggjur af hjónavigslunni vegna formgalla.

En því miður var ekki hægt að fresta brúðkaupinu, því Ólafur Ragnar verður bara sextugur einu sinni á ævinni.


Seðlabankastjóri slær til baka

Augljóst er að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri ætlar ekki að láta pólitíska andstæðinga sína eiga neitt inni hjá sér. Hann býður stjórnvöldum upp á óháða rannsókn útlendinga á störfum sínum og bankans í aðdraganda bankahrunsins. Svona bjóða strangheiðarlegir kjarkmenn. Ég hef ekki heyrt bankastjóra föllnu viðskiptabankanna bjóða neitt í líkingu við þetta.

Því miður hefur ríkisstjórnin látið nauðbeygð undan kúgunaraðgerðum Evrópusambandsins og ávísað skuldum óreiðumanna á komandi kynslóðir Íslendinga. Þetta er sama Evrópusambandið og Samfylkingin vill ólm að við leggjum lag okkar við. Það gerist vart þjóðhollara eða hvað?

Fyrr skal ég ganga Noregskonungi á hönd, en verða skúffa suðrí Brussell. Það verður aldrei sátt um inngöngu í Evrópusambandið eftir þær trakteringar, sem þjóðin hefur fengið þar að undanförnu.


Framsóknarflokkurinn rótslitnar

Jæja, þá eru dagar Framsóknarflokksins taldir. Hann hefur nú rækilega slitið sjálfan sig upp með rótum og verður ekki settur niður í frjóa mold, heldur mun hann skrælna á altari Evrópuhyggjunnar. Þjóðhollur og rótfastur stjórnmálaflokkur fremur kviðristu að ástæðulausu. Nú mega jakkafataklæddir piltar á borð við  Björn Inga og Pál Magnússon spreyta sig.

Er ekki rétt að þeir leggi flokkinn inn, sem framlag sitt til Samfylkingarinnar og þeirrar baráttu sem framundan er?


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn hrakinn út í horn

Sérkennilegt er að sjá geðlausan Sjálfstæðisflokkinn láta Samfylkinguna hrekja sig út í horn í plottinu um að þvinga Íslendinga í Evrópusambandið. Samantekin ráð Samfylkingarliðs í flokki, fjölmiðlum og háskólum um það að telja þjóðinni trú um að efnahagsvandi hennar hverfi eins og dögg fyrir sólu verði sótt um Evrópusambandsaðild og upptöku evru, eru farin að virka.

Hvílíkt lýðskrum. Þetta er ríkjasambandið sem nú leggst með öllum sínum ofurþunga á veikburða efnahag Íslands, herðir þumalskrúfuna og snöruna að hálsi okkar, þegar við leitum ásjár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki vil ég búa í húsi kvalara míns, þótt Samfylkingunni þyki það eftirsóknarverð híbýli.

Sagt er að atvinnulífið krefjist inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Hvaða atvinnulíf? Er það sjávarútvegurinn? Nei. Er það landbúnaðurinn? Nei. Er það stóriðjan? Nei. Og hvað er þá eftir sem skiptir einhverju máli? Kannski fjármálastarfsemin? Varla, hún er öll hrunin. Hafi einhvern tíman verið forsendur til þess að óska eftir inngöngu í ES og myntsamstarfi, eru þær rækilega brostnar og svo langsóttar að þjóðin getur ekki beðið.

Nærtækara væri að taka upp dalinn, mynt öflugasta ríkis á jörðinni, sem setur því engin skilyrði, og framkvæmdin er tiltölulega einföld, eftir því sem fróðir menn segja.

 


Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband