Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Snillingar í bandaríska utanríkisráðuneytinu

"Við höfum miklar áhyggjur af því, að stofnar langreyða og hrefnu séu ekki nógu stórir til að þola slíkar veiðar", segir í yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins vegna áforma Íslendinga að veiða nokkra hvali næsta sumar. Ákvörðun Íslendinga er byggð á vísindarannsóknum, sem benda eindregið til þess að veiðarnar séu vistvænar og fullkomlega sjálfbærar, en áhyggjur Bandaríkjamanna byggjast á tilfinningasemi, og þeirri barnalegu trú að matvælin verði til í hillum stórmarkaða. Þannig er það nú ekki og bandarískar stjórnsýslustofnanir hafa mjög vonda reynslu af því að draga rangar ályktanir um málefni annarra þjóða, hvort sem um er að ræða vopnaeign þeirra eða auðlindir í hafinu.

En þeim þykir alveg sjálfsagt að níðast á vopnlausri smáþjóð, líkt og vinum þeirra Bretum. Og eftir því sem mér hefur skilist stjórnar samfylkingarfólk í báðum ríkjunum nú um stundir.


mbl.is Bandaríkin fordæma hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondar fréttir af frændum vorum Svíum

Leiðinlegt er að heyra að niðursveiflan í Svíþjóð skuli vera mun alvarlegri er vísustu menn gerðu ráð fyrir. Skyldu þeir stefna í einhvers konar íslenskt ástand? Ætli að uppi séu ráðagerðir um að reka seðlabankastjórann? Hver ber ábyrgð á þessu ástandi? Kannski enginn? Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort að sænsk efnahagskreppa kalli á stjórnmálaóróa og galdrabrennur, eins og á Íslandi.

Ég geri þó ráð fyrir því að Svíar grípi ekki til óyndisúrræða að hætti íslenskra upphlaupsmanna, sem er nokk sama um land og þjóð, takist þeim í öngþveitinu að landa álitlegum pólitískum skyndigróða.


mbl.is Svíar í kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norskur samfylkingarmaður, eða hvað?

Nú er það komið í ljós að Norðmaðurinn ágæti Sveinn Haraldur, sem sest hefur í seðlabankann er ekkert annað en norskur samfylkingarmaður, með meistarapróf í hagfræði. Vill einhver geta sér til um það hve margir af þeim ca. fjöritíu hagfræðingum sem starfa hjá Seðlabanka Íslands, hafa sambærilegt próf í hagfræði og starfsreynslu.

Á ég að bera meira traust til Sveins Haraldar, en þeirra, sem svældir voru burt með bolabrögðum? Í mínum huga hefði Jóhanna Sigurðardóttir alveg eins getað fengið þá félagana Þorvald Gylfason og Jón Baldvin, til starfans. Það er kannski fínna að hafa samfylkingarmanninn norskan, eða hvað?


Íslenska minnimáttarkenndin

Þegar útrásin stóð sem hæst og allt flaut hér í erlendu lánsfé og erlendum samstarfsaðilum útrásarfyrirtækjanna, var almælt að ekki gengi að tala íslensku í íslenskum fyrirtækjum, vegna margra erlendra manna sem ýmist störfuðu við útrásina eða voru í margvíslegum daglegum samskiptum við hana. Svo langt gekk þessi vitleysa, að menn fóru að tala ensku á fundum þótt allir fundarmenn væru íslenskir. Var þetta ráðslag furðu lítið gagnrýnt, því vart mátti andmæla útrásarvíkingunum vegna afburða snilli þeirra. Íslendingar voru heimsmenn og öll veröldin var vettvangur þeirra. Undir slíkum kringumstæðum þýðir lítið að mæla á tungu, sem enginn skilur, og erfitt er að læra fyrir útlenda menn.

Nú er svo komið að íslenska er að nýju orðin daglegt mál í hversdagsönnum bankastarfsins, en upp er tekin norska í Seðlabanka Íslands, eða er enska orðin vinnumálið? 

Er þessi landlæga minnimáttarkennd gagnvart útlendingum komin á það stig hér á landi að ekki er lengur hægt að manna stofnanir samfélagsins með Íslendingum, svo vel sé, heldur þurfi að leita til útlendinga, sem hafa í reynd engum skyldum að gegna við land og þjóð.

Eða þykir þetta kannski fínt og til þess fallið að styrkja álit annarra þjóða á okkur og traust? Nei ég held að þessu sé einmitt öfugt farið. Nú fara útlendingar að bollaleggja hvort það sé nokkur raunverulegur grundvöllur fyrir sjálfstætt Ísland til langframa.


Stjórnarskrárbrot forsætisráðherra?

Í 20. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands stendur m.a.: "Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt".

Forsætisráðherra hefur nú sett norskan mann til að gegna embætti seðlabankastjóra tímabundið. Ástæða er til að ætla að sömu reglur og skilyrði skuli gilda um setningu í embætti að þessu tagi og skipun. Má því ætla að þessi ráðstöfun á embætti seðlabankastjóra fari í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og rétt sé að láta reyna á hana fyrir dómstólum. Mun ég taka ákvörðun um það síðar í dag hvort ég, sem borgari í þessu landi, muni kæra þessa stjórnvaldsákvörðun og láta reyna á hana fyrir dómstólum. 

Það er ekki yfir gagnrýni hafið að setja erlendan mann yfir íslenska seðlabankann, þar sem hann hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum, sem varða mikilvæga þjóðarhagsmuni í bráð og lengd, og lýsir nokkrum dómgreindarbresti af hálfu forsætisráðherra að grípa til slíkra úrræða, þar sem fjöldi velmenntaðra íslenskra manna getur auðveldlega tekið að sér starfið til bráðabirgða.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna bjargar fólki og fyrirtækjum

Hallærisríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er nú að leggja lokahönd á mikilvægasta verkefnið, sem hugsast gat til að efla atvinnulífið og bjarga heimilum landsins frá eignamissi og hremmingum. Í þessari ríkisstjórn eru miklir galdrameistarar og seiðkerlingar, sem hrært hafa í pottum sínum og framreiða nú pottréttinn "Rekum Davíð". Einhvern veginn er rétturinn frekar ólystugur, sérstaklega eftir Kastljósþáttinn, sem sýndur var í gærkvöldi. Davíð hefur ekki sagt sitt síðasta orð og er því rétt að spyrja að leikslokum. Almenningi er greinilega brugðið og er að átta sig á því að hér er illa vegið að heiðarlegum og vönduðum manni.

Ríkisstjórnin er að setja skelfilegt fordæmi um pólitískar ofsóknir og lætur eins og Sjálfstæðisflokkurinn komist aldrei aftur til valda. Hvernig væri að hafa hlutverkaskipti og ímynda sér að forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins væri að reyna að svæla Seðlabankastjóra úr Samfylkingunni úr embætti. Hvernig skyldu fjölmiðlar landsins láta þá? Vill einhver giska?


mbl.is Seðlabankafrumvarp afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju svarar Bessastaðaflónið?

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands hefur orðið uppvís að lygum og alvarlegum dómgreindarbresti og barnalegri tilraun til að starfrækja sérstaka utanríkisþjónustu óháða þeirri, sem stjórnmálamenn bera ábyrgð á. Ingibjörg Sólrún, ber auðvitað öðrum fremur, og Össur nú, ábyrgð á öllu bullinu í forsetanum og ekki ólíklegt að þeim leiðist orðið málfundaæfingar hans og politískir einleikir, sem eiga sér ekkert fordæmi. Forseti hlýtur að svara trúverðugum skrifum Eiðs Guðnasonar, fv. sendiherra eða hvað?

Er kannski kominn tími til að búsáhaldadeild, vinstri flokkanna, skundi til Bessastaða og haldi þar eins og eina tónleika og krefjist þess í leiðinni að húsráðandi þar taki pokann sinn?


mbl.is Á svig við sannleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta bara Svíar leyst íslenskar kreppur?

Ekkert veit ég um geðþekka Svíann Mats Josefsson, sem á að leysa efnahagskreppuna okkar, en hitt veit ég að síður geðjast mér að tillögum mannsins. Þegar kreppan barði á dyrnar hjá okkur á fjórða áratugnum og íslenskir vinstri menn sátu að völdum og kenndu stjórn sína við hinar vinnandi stéttir, var leitað á náðir Svía til að gera tillögur um lausnir. Atvinnumálaráðherrann Haraldur Guðmundsson, leitaði á náðir sænska sósíalistans og miðstýringarhagfræðingsins Gunnars Myrdal, sem gaf ekki kost á sér, en benti auðvitað á annan miðstýringarhagfræðing Erik Lundberg til starfans. Á þessum árum var miðstýring og ríkishyggja alls konar mjög í tísku, en engar tillögur Lundbergs virkuðu svo máli skipti.

Mun Svíinn Josefsson bara leggja til vondar miðstýringar- og ríkisafskiptatillögur að sænskri fyrirmynd, eins og landi hans Lundberg gerði fyrir sjötíu og fimm árum síðan?


Ólafur Ragnar úr samhengi alltaf.

Alveg er það magnað með þetta Bessastaðaflón, að það getur aldrei opnað munninn, án þess að sambandið á milli tungu og heila rofni. Þegar hann hefur látið gamminn geysa við þýskan blaðamann og bullað einhverja tóma vitleysu, sem kemst á prent, þá segir hann eftir á að ekki sé rétt eftir sér haft. Og nú hefur Kaupþing banki þurft að senda út leiðréttingu. Sömu aðferð notaði hann eftir fund með fulltrúum erlendra ríkja hér á landi ekki alls fyrir löngu, þegar þeir stóðu agndofa yfir rausinu og orð hans bárust út fyrir veggi herbergisins, þar sem þau féllu.

Væri ekki rétt að maðurinn segi af sér embætti og nýr forseti yrði kjörinn um leið og nýtt Alþingi í vor. Tímann þangað til myndi hann nota til að þegja sem fastast, og kannski þau hjónin bæði. Manni sýnist ekki vanþörf á því.


mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hengirúmakynslóð allra landa sameinist.

Íslenska fæðingarorlofskerfið er einsdæmi í veröldinni og í reynd afsprengi gervilífskjaranna sem urðu til í bankabólunni, sem nú er sprungin. Enginn stjórnmálamaður þorir þó að leggja til að þetta velferðarsplæs verði aflagt af ótta við að missa atkvæði. Sú kynslóð Íslendinga, sem hefur notið þessa rausnarskapar stjórnmálamannanna er sú sama og nú er að kikna undan gylliboðum bankanna, og enginn stjórnmálamaður varaði við af nokkrum þunga, nema Einar Oddur heitinn. Þetta er íslenska hengirúmakynslóðinn, sem aldrei hafði fundið samdrátt og minnkandi tekjur á eigin skinni, svo nokkru næmi, en fær höggið af slíku afli, að hún dettur fram úr hengirúminu, og æpir á hjálp.

Óskandi er að finnskir skattgreiðendur taki þá íslensku sér til fyrirmyndar af örlæti sínu, því Finnland hlýtur að eiga sína hengirúmakynslóð, líkt og við, og kreppan er vonandi ekki jafndjúp.

Fæðingaorfofshugmyndin er eitthvert magnaðast velferðarsplæs, sem stjórnmálamenn hafa fundið upp til að úthluta peningum til hátekjumanna í jafnréttisskyni.


mbl.is Vill tvöfalda íslenska orlofið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband