Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Vinir lýðræðisins að störfum?

Andstæðingar Silvios Berlusconis geta ekki sætt sig við það að hann skuli hafa staðið af sér vantrauststillögu í ítalska þinginu. Viðbrögðin eru þekkt meðal uppþotsmanna á vinstri væng stjórnmálanna - óeirðir og eignaspjöll, skemmdarverk og ofbeldi. Lögum verður væntanlega ekki komið yfir þennan skríl, frekar en þá, sem réðust með ofbeldi á alþingi Íslendinga fyrir tveimur árum síðan. Maður spyr sig hvort réttarríkið og lýðræðið sé að bresta og láta undan ofbeldisfólki, sem engu eirir, en hefur stöðugt í hótunum við alla þá sem veita viðnám.

Það væri áhugavert lokaprófsverkefni fyrir ungt fólk í fjölmiðlafræðinámi að draga saman hvað íslenskir prentmiðlar hafa sagt um Berlusconi og ítölsk stjórnmál síðast liðin tvö ár, eða svo. Það myndi auðvitað sýna hve fjölmiðlarnir, eða öllu heldur fjölmiðlungarnir, hér á landi eru lélegir. 

Gæti umsögnin hljómað svona: "Hann er mjög upptekinn af óeðlilegu sambandi við konur?"


mbl.is Mikil harka í mótmælum í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sjálfstæðisflokkurinn að bresta?

Ef spádómar Ásgerðar Flosadóttur ganga eftir þarf Sjálfstæðisflokkurinn  ekki að kemba hærurnar. En hvers vegna er millistéttin á Íslandi að tapa aleigunni? Er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði brugðist?

Ekki var hann við völd þegar verðtrygging var leidd í lög, og ekki var hann heldur við völd þegar frjálst framsal á kvóta var heimilað.

Og furðulegt er að  Fjölskylduhjálp Ísland skuli ná hæstu hæðum einmitt þegar norræna velferðarstjórnin situr að völdum á Islandi


mbl.is Telur millistéttina enda í fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afbrotafólk krefst réttarfars eins og í Þriðja ríkinu

Óvenju treglega hefur gengið að koma lögum yfir ógæfusöm ungmenni, sem ákærð voru fyrir árás á alþingi. Slík árás varðar við lög og refsiramminn gefur dómara vart svigrúm til annars en að dæma til fangelsisvistar. Satt best að segja vekur nokkra undrun að eigi skuli vera búið að ljúka málsmeðferðinni, þar sem tvö ár eru nú liðin frá atburðunum. Dómarinn er augljóslega skítsmeykur við pólitíska andrúmsloftið, sem umlykur alla umgjörð málsins, þótt að sönnu sé málið lögfræðilega einfalt í eðli sínu. Brotamennirnir níu leita nú eftir stuðningi almennings við hið ólöglega athæfi sitt og boða auk þess til samstöðuaðgerða á þingpöllum 8. desember næst komandi. Þetta ágæta fólk hegðar sér eins og harðsvíraður nauðgari, sem hótar endurkomu sinni til fórnarlambsins verði ekki látið að kröfum hans, sjálfsagt í því skyni að vekja ótta hjá bæði starfsfólki alþingis og dómara málsins.

Öll þessi framganga minnir mig á lýsingu dr. Gunnars Thoroddsens, sem Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur dregur fram í nýútkominni ævisögu Gunnars, þar sem hann lýsir þróun refsiréttarfarsins í Þriðja ríki nazistanna: „Hér er ekki aðeins dæmt eftir lögum heldur líka samkvæmt „gesundes Volksempfinden“ [heilbrigðri tilfinningu fólksins“] og ef þetta tvennt rekst á ræður hið síðarnefnda.“ (bls. 99)

Og það er ekki bara í þessu furðumáli níumenninganna, sem réttarkerfið í landinu á í vök að verjast. En skyldi Ögmundur vita af þessu?


mbl.is Stuðningsmenn níumenninganna boða aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúið uppá hendur lífeyrissjóðanna

Ríkisstjórnin áttar sig á því að ekki er hægt að láta lífeyrissjóðina slá hana kalda varðandi úrlausn á skuldavanda heimila. Það lítur illa út séð af sjónarhóli spunameistaranna, enda trúir almenningur því að hann eigi sjóðina. Það er rangt, hann aðeins borgar í þá, aðrir ráða. Ríkisstjórin rær nú lífróður og kastar eins miklu ryki í augu almennings og nokkur kostur er.

Þegar upp verður staðið hefur ekkert breyst - fjötrar þrælahalds verða lagðir á herðar fjölda Íslendinga, sem þeir munu ekki geta risið undir. Engin almannasamtök, eins og stjórnmálaflokkar og verkalýðsfélög munu æmta eða skræmta, því samtakamátturinn, í bili að minnsta kosti, ristir ekki dýpra en til þess eins að bjarga eigin skinni.

Maður eiginlega skammast sín fyrir þroskaleysi þessarar þjóðar.


mbl.is Meginatriði samkomulags að nást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur áhyggjur af skuldurum?

Sérkennilegt er hvað vonir hinna skuldugu lifa lengi í samfélagi, sem er sérsniðið að þörfum kröfuhafa. Nýfallinn hæstaréttardómur segir allt sem segja þarf um stöðuna. Krafa er eign og stjórnarskrárvarin. Það væri ágætt ef almenningur, skuldum vafinn eins og skrattinn skömmunum, færi nú loksins að átta sig á því, að skuldari, sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar, er fyrirlitinn og forsmáður. Einskis nýtur og getur bara sjálfum sér um kennt, hvernig staða hans er. Bankar, lífeyrissjóðir og reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar, hafa engan áhuga á stöðu illra staddra einstaklinga (þeir hafa kennitölu, en ekki heimili), heldur sitja þeir eins og þrælahaldari, sem reiknar kalóríurnar ofaní þrælana, svo þeir hætti ekki að vinna. Þjóðfélag kröfuhafanna gefur aldrei neitt eftir nema fyrir útvalda.

Satt best að segja þykir mér sem kjaftur hæfi skel, að Jóhann Sigurðardóttir skuli veita ríkisstjórn á Íslandi forstöðu, á sama tíma og stritandi alþýða sér aðeins dimma daga, vegna yfirgangs kröfuhafanna, sem eru hægt, en örugglega, að koma óorði á eignarréttinn.

Svo er stjórnarandstaðan steinhissa að hún skuli ekki njóta trausts almennings. Hvað eru þeir að stússa í stjórnmálum sem ekkert eiga erindið?


mbl.is Mikil óvissa í Stjórnarráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólkið á stjórnlagaþinginu

 Stjórnlagaþing er nýjung í íslensku þjóðlífi. Þáttur í farsa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem við getum kallað „Brauð og leikir.“ Slíka iðju stunda valdsmenn gjarnan í því skyni að leiða huga almennings frá risavöxnum vandamálum, sem á hann herjar, og þeir geta ekki greitt úr.

Ekki skyldi maður nú lasta alla þá ágætu Íslendinga, sem af hugsjón vilja leggja sitt af mörkum til þess að skapa „nýtt Ísland“ þótt flestum okkar hafi ekki þótt beinlínis þörf á því. Hins vegar er trúlega ágreiningslaust að Íslendingar hafi lent í „hafvillu.“ Kunn er frásögn Laxdælu er áhöfnin vildi taka leiðsögnina af Erni stýrimanni, um hvert skyldi halda úr hafvillunni og „sögðu þá ráða eiga er fleiri voru.“ Ágreiningi þessum var skotið til höfðingjans Ólafs Pá, sem var um borð. Úrskurður hans er frægur: „Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð er þau koma fleiri saman.“

Fráleitt er auðvitað að segja að stjórnlagaþing sé uppsóp af áhöfn Arnar stýrimanns og Ólafs Pá, og mörg er hún þar mannvitsbrekkan. Mér segir þó svo hugur, að kostnaður af stjórnlagaþingi verði meiri, en gagn fyrir land og lýð. Vonandi hef ég rangt fyrir mér í þessu efni.

Af græskuleysi hef ég leyft mér í gamni og alvöru að fella stutta palladóma um þá ágætu Íslendinga, sem þjóðin, þótt í litlum skammti sé, valdi á 600 milljón króna stjórnlagaþingið. Þjóð, sem býr við slík efni og getur auk þessa haldið 100 milljón króna þjóðfund og 100 milljóna króna Landsdóm yfir stjórnmálamanni, sem óhjákvæmilega verður sýknaður, er ekki á flæðiskeri stödd.

Fyrir minn smekk eru alltof margir svokallaðir sameignarsinnar á þessu þingi. Í eina tíð voru þeir kallaðir kommúnistar.

Þótt margt ágætt fólk hafi valist á stjórnlagaþingið blasir við að besta fólkið náði ekki kjöri. Vonum samt að Íslands óhamingju verði ekki allt að vopni.

Andrés Magnússon: Að eigin sögn hefur hann „margar mótaðar hugmyndir fyrir nýja stjórnarskrá.“ Hann bara gefur þær ekki upp? Andrés er enginn fagmaður í stjórnmálum, en mælir af ágætri sannfæringu. Hann heldur að þjóðir hafi réttlætiskennd. Það er rangt. Aðeins einstaklingar hafa þá kennd. Mér þykir óvíst um gagnsemi hans á stjórnlagaþingi.

Ari Teitsson: Vill „kveða skýrt á um framtíðaryfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.“ Vart er Ari að boða sameign þjóðar á auðlindum, heldur að vara við ásælni ESB. Hann er  velgefinn málafylgjumaður sinnar stéttar og hefur notið þess í kosningunum til stjórnlagaþingsins. Honum er kannski ókunnugt um það að hver kynslóð mótar sína framtíðarsýn og komandi kynslóðir gera ekkert fyrir þær liðnu, nema kannski að halda minningu þeirra á lofti.

Arnfríður Guðmundsdóttir: „Það þarf einnig að tryggja að auðlindirnar séu sameign þjóðar ...“  Prestakennarar eru orðnir svolítið til vinstri og meira eftir því sem kvenþjóðinni fjölgar þar. Veldi hún stjórnmálin sem starfsvettvang sinn til framtíðar, yrði hún skattgreiðendum dýr, slík er þjónustulund hennar.

Ástrós Gunnlaugsdóttir: Hún boðar „þjóðareign náttúruauðlinda.“ Er langlaglegust stjórnlagaþingsmanna og yngst. Brást við upphefðinni eins og sönn fegurðardrottning, þótt engin felldi hún tárin.

Dögg Harðardóttir: „Þá vil ég tryggja að náttúruauðlindir séu eign þjóðarinnar en ekki fárra útvalinna.“ Af orðum hennar verður ekki beinlínis ráðið hvort hún á við sameign þjóðarinnar allrar á auðlindum, undir yfirráðum stjórnmálamanna, eða hvort þær skuli vera í eigu íslenskra ríkisborgara. Hún mun væntanlega leggja sameignarsinnum á stjórnlagaþingi lið.

Eiríkur Bergmann Eiríksson: Enginn sameignarsinni segist hann vera, en vill þó kasta þingræðinu fyrir róða og kannski stjórnmálaflokkunum með. Virðist hlynntur kosningakerfi eins og það var fyrir tíma nútíma flokkakerfis. Það er kallað persónukjör í dag. 19du aldar maður í pólitískri hugsun? Kannski skreiðist hann tvo áratugi inní þá 20ustu.

Erlingur Sigurðsson: Segist ekki vera sameignarsinni, en minnir okkur á að „öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.“ Hljómar einhvern veginn eins og „allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir.“ Myndi vart bregðast sameignarsinnum á ögurstund.

Freyja Haraldsdóttir: Enginn sameignarsinninn segist hún vera og er „sannfærð um að með gegnsærri og auðskilinni stjórnarskrá, sem unnin er af fagmennsku og þekkingu, þar sem mannréttindaákvæði eru skýr, séu skapaðar forsendur fyrir samfélag þegnanna til að tjá sig og hafa áhrif.“

Mig hefur skort hugmyndaflug til að átta mig á forsenduskorti borgara þessa lands til að tjá skoðanir sínar opinskátt og óhindrað.

Gísli Tryggvason: Enginn sameignarsinni eða hvað? Lætur okkur þó vita að „sjálfbær nýting sameiginlegra auðlinda á að vera stjórnarskrárvarinn.“ Ekki vissi ég að til væru sameiginlegar auðlindir, þótt ég vissi að fólk notaði bæði kalt vatn og heitt, auk rafmagns, gegn greiðslu. Hygg að faðir hans hefði nýst þjóðinni betur á stjórnlagaþingi, en aldrei er á allt kosið.

Guðmundur Gunnarsson: Auðkonufaðirinn lætur ekki að sér hæða. Hann talar eins og sannur sameignarsinni. Hann telur að „setja þurfi ítarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum.“ Guðmundur hefði sæmt sér vel í stjórnarskrárnefnd Ráðstjórnarríkjanna sálugu.

Illugi Jökulsson: Ekki örlar á sameignarhugmyndafræði mannsins. Hann telur þó að „leyndarhyggja sem of lengi hefur ráðið ferðinni átti ríkan þátt í hruninu og hún verður að hverfa. Ný stjórnarskrá getur orðið öflugt vopn gegn þeim klíkuskap og duttlungaræði, sem urðu okkur svo dýr.“

Illugi er fullkominn endaskiptamaður. Klíkuskapur og duttlungaræði hefur náð nýjum hæðum á Íslandi eftir hrun. Hann vill bara ekki koma auga á það.

Inga Lind Karlsdóttir: Þessi ágæta kona er auðvitað enginn sameignarsinni – eiginlega hálfgerð Öskubuska Íslands.Maður gleðst yfir því að umtalsvert mannvit skuli veljast á Stjórnlagaþing. Með framlagi hennar verður fylgst vandlega og engin ástæða er til að ætla að ekki verði hlustað vandlega þegar hún opnar munninn.

Katrín Fjelsted: Auðvitað er Katrín fjarri því að vera einhvers konar sameignarsinni og mér þótti hún skýra ástæður framboðs síns einna best af þeim sem buðu sig fram er hún segir „að stjórnarskráin eigi að verja hag almennings og setja valdamönnum nauðsynlegar skorður.“ Bind nokkra vonir við það skynsamlega í viti Katrínar.

Katrín Oddsdóttir:  Hún er lýðskrumari af guðs náð, enginn vafi, ef eitthvað er að marka ástæður framboðs hennar. „Ég vil að íslenskar auðlindir verði ekki erlendum stórfyrirtækjum að bráð,“ segir hún innblásin. Alveg er ég sammála henni og trúlega allir sem lesa vísdómsorð hennar. Hún talar þó eins og hún hafi verði lengi fjarverandi – eiginlega hálfpartinn úti á þekju. En getur það skaðað?

Lýður Árnason: Hann er trúlega langskemmtilegasti stjórnlagaþingsmaðurinn, en í honum blundar sameignarsinninn hvað sem orð hans um „óvirkt lýðræði og áhöld um eignarrétt auðlinda,“ merkja. Hann vill þó „virkja þjóðinni í hag“ en ekki fallvötnin, heldur óvirka lýðræðið og áhöldin um auðlindirnar. Kannski skil ég hann ekki alltaf.

Ómar Ragnarsson: Hann hefur verið sameign Íslensku þjóðarinnar mjög lengi, skemmtikraftur og náttúruunnandi. Stjórnlög verða þó seint hans sérsvið – þar er hann enginn fagaðili, þótt skoðanir hafi hann á þeim. Ómar vill „auka sjálfstæði dómsvalds og löggjafarþings og auka vægi þingnefnda.“ Ókunnugt er mér um það að dómsvaldið hafi kvartað sérstaklega undan ósjálfstæði, nema kannski að stuna heyrist frá því nú, þegar þingmenn Vg vilja seilast til áhrifa á saksókn og ákvarðanir dómstóla.

Ómari er kannski líka ókunnugt um það að stjórnmálaflokkar starfa í landinu, enda einlægur naívisti í stjórnmálum.

Pavel Partozek: Hann mælir skynsamlega um ástæður framboðs síns. Eitt augnablik hélt ég þó að kjör hans tengdist því á einhvern hátt að vinstrimennirnir héldu að hér væri nýbúi í framboði. Svo mun þó ekki vera og Pavel er mjög nýtur Íslendingur, þótt nafn hans sé útlent. Sameignarsinni er hann enginn.

Pétur Gunnlaugsson: Hann er örugglega mesti gáfumaðurinn sem valist hefur á stjórnlagaþingið, þótt sumum þyki þeim gáfum kastað á glæ. Það er rangt. Nú munu þær njóta sín til hins ítrasta. Pétur er andkommúnisti og mun bara leggja góðum og skynsamlegum málum lið á stjórnlagaþingi, ef ég þekki hann rétt.

Salvör Nordal: Hún er næst laglegust nokkurra systra, dætra Jóhannesar, sem mest stjórnmálaáhrif hafði íslenskra manna eftir miðja tuttugustu öldina, en var ekki kjörinn til slíkra áhrifa af almenningi. Vel gæti ég haldið að faðir hennar hefði lagt á ráðin um skýringar á ástæðum þess að hún bauð sig fram – svo opið og flughált er svarið. Hún hljómar mjög pólitísk, en sveimhuga í senn. Trauðla sameignarsinni.

Silja Bára Ómarsdóttir: Hún toppar aðra stjórnlagaþingmenn í draumórum hugsjónanna. Er einhvern veginn eins og ráðríkur hússtjórnarkennari í allri framgöngu, þótt hún sé háskólakennari. Henni er þó ekki alls varnað. Snarskörp, skipulögð, vel að sér um sumt og með femíníska sjálfstraustið í botni, þótt það kvenlega skorti á köflum að mati „pungrottunnar“. Sjarmerandi og þokkafull blanda, engu að síður.

Hún vill „tryggja ábyrga nýtingu auðlinda í þágu þjóðar og með hag mannkyns í huga.“ Getur einhver toppað þetta? Hún mun leggja sameignarsinnum á stjórnlagaþingi lið sitt.

Vilhjálmur Þorsteinsson: Sérkennileg blanda af sósíalista og áhugamanni um auðsöfnun. Af áherslumálum hans um ástæður framboðsins má ráða að hann er með öllu hugsjónalaus, en segir það sem vel kann að hljóma í eyrum fólks. Hann er pólitískur korktappi, sem alltaf mun fljóta í ólgusjó stjórnmálanna. Honum lætur betur að gera viðskiptaleg bandalög, en bandalög um hugsjónir og stjórnmál. Hann mun leggja sameignarsinnum lið á stjórnlagaþingi, sé einhver ávinningur í því fyrir hann.

Þorkell Helgason: Enginn sameignarsinni. Góðviljað og vandað gáfumenni á eftirlaunum, sem býr að reynslu aldanna. Hann er alls enginn „haukur“ í pólitískum átökum og vill í reynd engar breytingar gera á núgildandi stjórnarskrá, nema sem horfa til augljósra bóta. Og þær eru ekki margar og flóknar að hans mati.

Þorvaldur Gylfason: Mér hefur alltaf þótt hann geðfellt gáfumenni. Það mun þó vera ágreiningsefni á milli manna, sem þekkja hann. Ég þekki hann lítið sem ekkert. Hann vill „ný ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum...“ Líklega myndi honum ekki leiðast að fara með þann eignarrétt fyrir hönd þjóðarinnar. Þorvaldur mun í framhaldi stjórnlagaþings leita eftir pólitískum frama á alþingi og engu skal ég spá um velgengnina, en hann er strax farinn að máta fötin. Það blundar í honum leiðtogi. Að minnsta kosti þráin.

Þórhildur Þorleifsdóttir: Hún heldur að konur séu hornrekur mannlegs samfélags, en karlarnir „sóðar“ þess sama félags. Þetta er auðvitað rangt, en á rætur sínar í árangursríkri pólitískri hugmyndafræði. Hún er kona pólitískra þverstæðna og þegar hún talar um sátt, merkir það: „Ég ræð.“ Hún mun verða „Soffía frænka“ stjórnlagaþingsins og er sameignarsinni úr verstu skúffu, þótt hún þegi um það.

Örn Bárður Jónsson: Hann er prestur af guðs náð. Góðviljaður og draumlyndur sveimhugi, sem hefur „áhuga á landi og þjóð og framtíð Íslands.“ Hann að vísu skilur ekki tilgang stjórnarskrárinnar, ef eitthvað er að marka ástæður fyrir framboði hans, en hlýr góðvilji drýpur af orðum hans. Hann yrði ágætur skógarvörður í Hálsaskógi. Erindi hans á stjórnlagaþing finnst mér aftur á móti óljóst.


Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband