Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Er Kjartan ekki hluti af atburðarásinni?

Kjartan Gunnarssson er trúlega eini prókúruhafi Íslandssögunnar, sem fengið hefur 55 milljónir inn á reikninginn sinn, en ekki vitað af því, og fjarri lagi haft hugmynd um að slíkt væri í bígerð. Gott og vel. Við skulum gera ráð fyrir því að hugarástand hans sé eitthvað svipað því sem gerist hjá Sveini Haraldi hinum norska í Seðlabankanum og Davíð Oddsson lýsti ágætlega í ræðu á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Allir vita að Sveinn Haraldur sagði ósatt og allir vita að Kjartan Gunnarsson er líka að segja ósatt. Hann mun auðvitað enga fórn færa og standa á lyginni, eins og hundur á roði, og enginn þingmaður flokksins mun spyrja, hvort hann hafi ekki glatað trausti flokksmanna, hvað þá trausti almennra kjósenda flokksins, þannig að til tjóns horfi.

Bjarni Benediktsson, nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, mun auðvitað hugleiða hvort Kjartan muni ekki þurfa að axla ábyrgð og segja lausu sæti sínu í miðstjórn flokksins. Að minni hyggju reynir hér nokkuð á staðfestu og getu hins nýja formanns til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til stórra verka.


mbl.is Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlaði flokkurinn ekki að njóta?

Hún er hálfaulaleg vörn Kjartans Gunnarssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins í styrkveitingamálinu. Ætlaði flokkurinn ekki að njóta fjárins, ef ekki hefði orði opinbert um tilvist þess? Hann þrætir eins og barn, sem staðið hefur verið að því að brjóta gluggarúðu. Hann iðkar þá list að þræta fyrir sannleikann, þótt hægt sé að reka hann beint ofaní kokið á honum, og skiptir þá litlu hvort það er í smáu eða stóru, eins og nú er. Ágætis dreng eins og Andra Óttarssyni, er fórnað, eins og bakara fyrir smið. Reynt verður að fórna dugmiklum þingmanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni í leiðinni. Slík fórn flokkast sem hreinsunarstarf í sumra hugum að teknu tilliti til þess að flokkurinn mun fara illa í næstu kosningum hvort sem er.

Má ég giska á að leitað verði til Ásdísar Höllu Bragadóttur um að taka við framkvæmdastjórn Sjálfstæðisflokksins innan tíðar. 


mbl.is Upplýsir ekki hverjir leituðu styrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógeðfelld aðför

Maður hefði nú haldið að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti á öllu öðru að halda en innanhússvígum tveimur vikum fyrir kosningar? Það er nú öðru nær. Ekki veit ég í hvaða logum, hvað þá stafna á milli, heimildarþingmaður netMogga úr Sjálfstæðisflokki er staddur. En hitt veit ég að hér er á ferðinni andstyggileg aðför að Guðlaugi Þór, gegnum og vinsælum þingmanni flokksins. Og eins og jafnan, þegar sótt er að mönnum renna slefandi hýenurnar í blóðslóðina. Ein þeirra er Ragnheiður Ríkharðsdóttir, samþingmaður Guðlaugs Þórs, sem vart má vatni halda af vandlætingu.

Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins þarf nauðsynlega að aga kjaftagleiðar tækifæriskerlingar flokksins.


mbl.is „Það logar allt stafnanna á milli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sænska fjölmenningarsamfélagið

Hún lætur ekki að sér hæða fjölmenningin. Þeir hljóta að vera einhvers konar fórnarlömb, þessir ungu menn, sem allt í einu komast í risavaxið hóruhús, að teknu tilliti til uppeldis þeirra og menningar.

Vill einhver giska á um menningarlegan og trúarlegan uppruna þessara ungu karlmanna?


mbl.is Grunur um skipulagðar hópnauðganir í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt Stalíngrad Sjálfstæðisflokksins

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins halda honum í pólitískri herkví, svo hann má sig vart hræra. Úr þessum katli þarf að komast, ef ekki á illa að fara. Nú þarf að taka djarfar ákvarðanir og pólitíska forustu fyrir framtíð lands og þjóðar.

Í nærri tvöhundruð daga hefur þjóðin hlustað á hundrað hagfræðinga greina frá því hvað úrskeiðis hefur farið. En þjóðin er í reynd engu nær, þótt eitt og annað hafi skýrst. Nú þurfa stjórnmálamennirnir að taka af skarið, hætta öllum spegúlasjónum og eyða óvissu hjá þúsundum landsmanna um framtíðina og tala kjark í fólk. Nú duga engin kjaftagangsstjórnmál. Nú þarf framkvæmdastjórnmál með öfluga pólitíska framtíðarsýn. Gæli einhver við þá hugsun að framtíðarsýnin sé í boði Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Jóhanns, er rétt að sá hinn sami ýti henni frá sér og láti ekki glepjast.

Nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að sýna að hann hafi getu til pólitískrar forustu. Það yrði ekki góð byrjun hjá honum að flokkurinn fengi verstu útreið sögunnar í kosningum. Að minni hyggju þarf hann að hafa forustu um það að Íslendingar taki upp nýjan gjaldmiðil einhliða, hvort sem er evra eða dalur, því það hafa hagfræðingarnir þó kennt okkur að jafnlítið myntsvæði og það íslenska, sem er galopið í þokkabót, rís ekki undir eigin gjaldmiðli við slíkar aðstæður. 

Tími aðgerða er runninn upp.


Obama, lærifaðir Tyrkja?

Það er nú ekki beinlínis svo að Bandaríkin raði öðrum ríkjum á jötuna hjá Evrópusambandinu. Eiginlega hafa þau ekkert með það að gera. En stórveldið vill hjálpa sínum, sem eðlilegt er og lætur því vita af því að það sé þeim þóknanlegt að Tyrkir eigi aðild.

Nú heyrði ég ekki ræðu Bandaríkjaforseta í tyrkneska þinginu, en skyldi hann hafa bent þeim á það að þeir þurfi að laga ýmislegt í löggjöf sinni, áður en Evrópuríkin svo mikið sem hugleiða að veita þeim inngöngu? Ætli hann hafi bent þeim á sömuleiðis að stjórnmálamenn ráða ekki efni fjölmiðla á Vesturlöndum, en sá misskilningur Tyrkjanna varð augljós, þegar þeir lögðust gegn skipan Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, í stöðu framkvæmdastjóra NATO, vegna þess að ekki vildi hann banna myndbirtingar í dönskum blöðum, sem voru einhverjum trúarofstækismönnum lítt þóknanlegar, eða banna rekstur fjölmiðils í Kaupmannahöfn, sem rekinn var af minnihlutahópi, sem býr innan landamæra Tyrklands og kallast Kúrdar.

Myndi heilvita maður leggja til að ofbeldismaður fengi bústað á kærleiksheimili?


mbl.is Obama: Ítrekar stuðning við inngöngu Tyrklands í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími akademískra æfinga er liðinn!!

Í hálft ár hafa landsmenn þurft að hlusta á akademískar æfingar hagfræðinga um úrlausnir fyrir Ísland framtíðarinnar, vegna hremminganna sem á okkur hafa dunið. Niðurstaða þeirra er engin. Nú þurfa stjórnmálamennirnir að koma til skjalanna og taka af skarið. Hagfræðin er þó ekki gagnslaus. Hún hefur sýnt fram á að bankakerfið óx okkur yfir höfuð, stjórnmálamennirnir sváfu á verðinum, stjórnendur bankanna fóru óvarlega og tjón landsins er meira en svo að landsmenn fái undir því risið. Í stöðu sem þessari duga engin vettlingatök, enginn undirlægjuháttur eða smjaðurslegur velvilji gagnvart lánadrottnum landsins. Ísland er í nauðvörn og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það er beinlínis pólitískur ómöguleiki, svo ekki sé minnst á þann efnahagslega. Sé það til þess fallið að koma óorði á land og þjóð, verður svo að vera. Undir kröfunum verður ekki risið og mannorðið endurheimtist síðar. Bollaleggingar hagfræðinnar duga ekki lengur, nú þurfa að koma fram á leikvöllinn dugdjarfir og vaskir stjórnmálamenn, með framtíðarsýn. Hún liggur ekki í því að læðast uppí fleti Evrópusambandsins, heldur í djörfum ákvörðunum sem heil þjóð þarf að fylkja sér um. Þjóðin þarf að marka sér stöðu sjálfstæðis til lengri tíma litið, því eins og staðan er núna erum við hársbreidd frá því að glata því. En hvernig verður það gert?

Í bráðina eru kostirnir fáir og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Nærtækasti kosturinn í þröngri stöðu nú, er sá að taka upp bandaríkjadal, öflugasta gjaldmiðil heimsins. Vel kann það að vera að einhverjir ókostir fylgi því, en þeir geta ekki verið fleiri en kostirnir. Að gangast Evrópusambandinu á hönd er eins og að fara úr öskunni í eldinn, ávísun á sundrung og óeiningu og kostir aðildar kæmu jafnvel aldrei fram. 

Tveir ungir hagfræðingar hafa leitt rök að því að vel sé gerlegt að taka upp bandaríkjadal, sem gjaldmiðil á Íslandi og fyrir liggur að Bandaríkin muni ekki gera nokkra athugasemd við ráðslagið. Hvað veldur hiki stjórnmálamannanna? Kjarkleysi eða almennt getuleysi stjórnmálanna? Skortur á framtíðarsýn eða ábyrgðarleysi? Látum liggja á milli hluta hvað veldur, en hitt er víst að ekki er hægt að láta sem ekkert sé.

Fyrir liggur hvað Vg og Sf ætla sér eftir næstu kosningar. Sitja að landsstjórninni, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut til að laga stöðu heimila og atvinnulífs. Landinu mun blæða út með miklu tjóni, lífskjör munu færast einhverja áratugi aftur í tímann og "búsáhaldabyltingar" verða stjórntæki yfirvaldanna. Þetta má ekki gerast. En hvað er til ráða? Hugdjörf ákvörðun nýkjörins formanns Sjálfstæðisflokksins væri sú að boða í kosningabaráttunni afnám verðtryggingar í kjölfar upptöku bandaríkjadals þrem vikum eftir kosningar. Slíku yrði vel tekið innanland sem utan, nema væntanlega af Evrópukrötum. Og hvað með það, slíkt lá alltaf fyrir.

Nú má engan tíma missa. Skyldan kallar hvellum rómi.

 


Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband