Þessi grein eftir mig birtist í tímaritinu Þjóðmálum (1. hefti, 8. árg. vor 2012).
Flestir myndu svara þessari spurningu neitandi og jafnvel segja hróðugir, að hið sama ætti að gilda um þjóðerni, litarhátt, ætt og uppruna, kynhneigð, trúarbrögð og jafnvel bæta við fötlun, offitu, geðveiki og drykkjuskap, svo öllu réttlæti væri nú fullnægt. En allur augljós einfaldleiki er að víkja úr löggjöf okkar í þessu efni smátt og smátt, og hin flóknu atriði hártogunar að taka við.Í 72. gr. lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 segir: Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða." Klippt og skorið og öllu sæmilega læsu fólki auðskilið. Þessi grein var samhljóða 54. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874, en hún var þýðing á 86. gr. dönsku grundvallarlaganna frá 1866, sem átti fyrirmynd sína í 11. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar frönsku frá 26. ágúst 1789.
Þessi regla um hugsun, skoðun og tjáningu gekk með miklum ágætum á Vesturlöndum langt fram eftir 20. öldinni, þótt hún hefði átt í vök að verjast þar sem kommúnistar og önnur stjórnlynd stjórnmálaöfl komust til valda. Vantaði þó ekkert upp á mannréttindakaflana í stjórnarskrám ríkjanna sem þeir stjórnuðu. Hornsteinn hinnar frjálsu hugsunar, skoðunar og tjáningar var lagður af franska heimspekingnum Voltaire með orðunum, sem ævisöguritari hans endursagði: Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það." Þessi meitluðu orð eru afdráttarlaus, þótt við höfum sjálf sett okkur skorður eða þá löggjafinn eftir atvikum, af ástæðum trúnaðar, velsæmis og kurteisi. Þannig ætti öllum að vera það ljóst að lækni eru ekki settar málfrelsisskorður þegar lög heimila honum ekki að tala opinberlega um vandamál skjólstæðinga sinna. Samskonar reglur gilda um margar aðrar starfsstéttir. Þetta virðist þó sálfræðingur norður í landi ekki skilja, ef eitthvað er að marka skrif hans í vikublaðið Akureyri fyrir skömmu.
Seint á 20. öld taka menn upp á því að finna hugvitsamlegar aðferðir til þess að setja tjáningarfrelsinu skorður. Þess sér stað í stjórnarskrábreytingu frá 1995, en þá umorða menn lítilsháttar fyrrnefnt stjórnarskrárákvæði frá 1944 og bæta við: Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum." (73.gr. núgildandi stjskr.) Skorðurnar á tjáningarfrelsinu, sem rötuðu í íslensku stjórnarskrána 1995 eru auðvitað evrópsk upphefð, sem kann að opna flóðgáttir heimskulegra málaferla um mörk tjáningarfrelsisins. Í stað þess að styðjast við þá ágætu reglu að allar skoðanir og hugmyndir skuli glíma á markaðstorgi hugmyndanna var fundið upp á því að sumar skoðanir væru óæskilegar, uppfullar af fordómum, meiðandi og særandi. Búið var að uppgötva fórnarlambið sem ríkisvaldið þurfti að verja. Vel kann það að vera rétt að einhverjum þyki sér misboðið vegna skoðana annarra, en hvaða kröfu á slíkur aðili á opinberri vernd, sem í sinni ýktustu mynd getur kallað yfir aðra atvinnumissi og fangavist? Alls enga. Aldrei myndi mér detta í hug að krefjast þess að tjáningarfrelsi annarra yrði takmarkað, svo að mér kynni að líða betur, eða vera rórra í sálinni. Tjáningarfrelsi hinna ólíku sjónarmiða hlýtur að vera gagnkvæmt. Með öðrum orðum ég get alltaf svarað fyrir mig, sé að mér sótt.
Nú hefur hið ómögulega gerst, að nafntogaður kennari norður á Akureyri, Snorri Óskarsson, jafnan kenndur við Betel, er settur í leyfi af skólayfirvöldum, á grundvelli skoðanna sinna og tilvísana í Biblíuna, vegna þess að einhverjum mislíkar við skoðanir hans á samkynhneigð, sem hann viðrar á bloggsíðu sinni. Þúsundir annarra Íslendinga tjá skoðanir sínar um allt á milli himins og jarðar á bloggsíðum og er óhætt að segja að margbreytileikinn í skoðunum sé undraverður, en sýnir um leið hvernig umburðarlynd frjálslyndishefð í lýðræðisríki fær notið sín. Ísland líkt og önnur frjáls ríki hefur meiðyrðalöggjöf og setur í lög ýmsar skorður við ónærgætni í samskiptum fólks, þótt ekki setji það tjáningarfrelsinu takmörk. Óhætt er þó að segja að skoðun Snorra á samkynhneigð sé lítt til vinsælda fallin nú á tímum, að minnsta kosti opinberlega. Það eru engar ýkjur að samkynhneigð hefur um aldir verið litin hornauga og fólk jafnvel þurft að gjalda fyrir hana með lífi sínu. Vonandi eru þeir tímar að baki og eiga ekki afturkvæmt. Hins vegar mun samkynhneigðin eftir sem áður verða tilefni spaugsyrða og gamanmála, ef að líkum lætur.
Nú er ekki meiningin að ræða hér kosti og lesti samkynhneigðar, heldur hitt hvort mönnum leyfist að hafa skoðun á henni og hvort að setja beri því skorður hverjir megi hafa skoðun. Nú er því ekki til að dreifa í máli Snorra að fjöldahreyfing á meðal foreldra barna í Brekkuskóla á Akureyri, þar sem hann hefur kennt í tíu ár, hafi gert kröfu um brottvikningu hans úr starfi vegna afstöðu hans til samkynhneigðar, sem hefur þó verið kunn um langt árabil. Heldur hefur því verið haldið fram að málið hafi flokkspólitískan fnyk, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Árni Johnsen, alþm. brást til varna fyrir Snorra úr ræðustól alþingis og sagði að hér væri á ferðinni árás á hann að undirlagi Samfylkingarinnar. Enginn dómur skal lagður á þessa afstöðu hér, en óneitanlega vekur það nokkra athygli að þeir menn, sem mest hafa haft sig í frammi í þessu máli verma báðir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.
En hvað sagði Snorri í bloggfærslu sinni sem varð til þess að hann verðskuldaði leyfi frá störfum úr hendi skólayfirvalda, á launum frá skattgreiðendum? Kálfshjarta hinna óttafullu fulltrúa pólitíska rétttrúnaðarins brast við þessi ummæli: Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg." Dæmi nú hver fyrir sig. Má ætla, að séu orð af þessu tagi grundvöllur brottrekstrar úr vinnu, að fjöldi fólks í opinberri þjónustu þurfi að afsala sér stjórnarskrárvörðum rétti sínum til frjálsrar tjáningar og skoðanaskipta? Blasir það ekki við? Af yfirlýsingu frá Akureyrarbæ, sem send var fjölmiðlum í kjölfar brottvikningar Snorra, má ráða að tjáningarfrelsi hans hafi verið á skilorði hjá ráðamönnum bæjarins, en í yfirlýsingunni segir meðal annars: Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust og hart við þeim ummmælum sem nú eru til umræðu." Það er engum vafa undirorpið að skólayfirvöld líta svo á að Snorri, og þá líklega allir starfsmenn bæjarins, megi alls ekki hafa skoðun á samkynhneigð, nema þá til að lofa hana og prísa. Þetta er álíka vitlaust og löggjöfin sem bannar fólki að tala um tóbak, nema illa.
Höfuðröksemdin gegn sjónarmiðum Snorra er sú að hann sé að kenna börnum á viðkvæmum aldri og þroskaskeiði. Gott og vel. En hvernig á kennari í grunnskóla að bregðast við ef samkynhneigð ber á góma í kennslustund? Á hann að segja við bekk sinn að hann megi ekki ræða þetta, enda komi fólk frá Samtökunum 78 í skólann til þess að leiða nemendur í allan sannleikann um fyrirbærið; eða á hann að skýra málið og geta þess að deildar meiningar og ólíkar skoðanir fólks á samkynhneigð séu til staðar, auk þess sem flest trúarbrögð líti hana hornauga og fordæma, en veraldarhyggja nútímans leggi blessun sína yfir hana? Sannleikurinn er sá að það er beinlínis háskalegt að taka tjáningarfrelsið frá kennarastéttinni, því það er sú stétt, sem á að draga fram andstæð viðhorf um allt á milli himins og jarðar í mannlegu samfélagi, tefla fram andstæðum viðhorfum og rökræða þau. Slík nálgun býr börn best undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. En vandinn er jafnan sá að óvinir frelsisins rökræða ekki þeir skrækja og skjóta."
Í þessu samhengi vakna ýmsar áleitnar spurningar. Hvað er eðlilegt að ræða við grunnskólabörn og fræða um í grunnskólum? Er eðlilegra að fræða um samkynhneigð en til dæmis klám og vændi eða kristindóm? Hvaða spurningar og álitamál má bera upp í skólastarfi yfirleitt? Hvaða skoðanir mega kennarar hafa og hverjar ekki? Við spurningum af þessu tagi er ekki til neitt einhlítt svar, en mikilvægt er að hafa í huga að umburðarlyndið er einn af hornsteinum hins frjálsa samfélags og ástæðulaust að láta pólitískan rétttrúnað grafa undan frjálslyndishefð lýðræðisríkisins Íslands. Með því að reka kennara úr starfi fyrir skoðanir sínar, taka menn að feta brautir, sem geta bara endað í öngstræti
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2011 | 21:23
Brandarakallinn Jalil.
Eftir að evrópskir skattgreiðendur hafa tekið að sér að koma hryðjuverka- og ógnarstjórnarmanninum Gaddafi frá völdum með ærnum tilkostnaði, sprettur fram á sjónarsviðið leiðtogi þjóðarráðs Líbíu, Mustafa Abdel Jalil (sem er að vísu gamall bandamaður fyrri stjórnvalda) og segir okkur að nýtt hófsamt múslimaríki muni rísa á rústum Líbíu, byggt á sharíalögum. Fljótt á litið gæti maður haldið að maðurinn væri að spauga, en svo er alls ekki.
Þekkir einhver hófsamt múslimaríki byggt á sharíalögum? Sjálfum þykir mér hófsemi Tyrkjaveldis nútímans alveg á mörkunum, er það þó veraldlegt ríki í meginatriðum.
Skattgreiðendur Vesturlanda eiga ekki að taka í mál annað en að á rústum Líbíu Gaddafis, rísi veraldlegt ríki múslima, sem sækir fyrirmyndir að minnsta kosti til Tyrklands og hið sama þarf að gerast um svæðið frá Marokkó til Egyptalands.
Er við því að búast að stjórnmálaleiðtogar hins vestræna heims standist þá freistingu að vinna frekar fyrir hugsjónir frelsisins, en hagsmuni olíuauðjöfra? Reynslan kennir okkur að frelsishugsjónin er iðiulega borin ofurliði af sérhagsmunum.
Segir Líbíu verða hófsamt múslimaríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.9.2011 | 22:51
Pólitískur leikskóli Guðmundar Steingrímssonar
Íslenska stjórnmálakerfið tekur stundum á sig skrítnar birtingarmyndir. Segja má að kjarninn í skringilegheitunum sé barátta utanveltumanna gegn fjórflokknum, sem svo hefur verið kallaður. En fjórflokkurinn hefur í reynd aldrei verið til nema í hugum þeirra, sem aldrei hafa getað verið í neinum flokki, en haft pólitíska viðkomu víða. Guðmundur Steingrímsson er einn slíkur.
Af fréttum að dæma um pólitíska hugsun hans má það eitt ráða að lífið sé spennandi og áhugavert og fyrirhöfnin öll muni leiða til betra Íslands. Svo er hann búinn að komast að því að til er fullt af fólki sem finnst það ekki eiga heima í þessum hefðbundnu flokkum og upplifir flokkakerfið ekki í stakk búið til að sinna kröfum nútímans. Það er engu líkara en að Guðmundur hafi aldrei stigið inn fyrir dyr hjá þessum "hefðbundnu stjórnmálaflokkum". Sannleikurinn er auðvitað annar. Hann er flokkaflakkari!!
Guðmundur Steingrímsson er mjög fyrirsjáanlegur stjórnmálamaður, hann er tækifærisinni, eins og hann á kyn til, en hefur engan stjórnmálaflokk að baki sér, líkt og forfeður hans. Hann er reiðubúinn til að leggjast lágt fyrir pólitískan frama, en árangur er óviss. Pólitískt samstarf með borgarstjóranum Jóni Gnarr er einkennilegt sjónarhorn um framtíðarsýn,svo ekki sé meira sagt.
Aðspurður um helstu stefnumálin segir hinn ungi stjórnmálaleiðtogi:"Við erum öll víðsýnt fólk, fylgjandi þessum lýðræðisumbótum sem er verið að tala um eins og stjórnlagaráði. Ekkert okkar er á vegum sérhagsmuna, við erum að hugsa um almannahagsmuni og heiðarleika í pólitík og viljum stunda hann og viljum líka tala öðruvísi í pólitík. Þetta er friðarins fólk, fólk sem hefur mannúð og frið í hávegum, alþjóðlega sinnað held ég að megi segja og margt hvert Evrópusinnað."
Er pólitískur leikskóli í burðarliðnum eða eitthvað annað?
Er einhver nær?
Áhugi víða fyrir nýju framboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2011 | 00:19
Til hamingju Íslendingar
Nú blasir það við að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins eru lent í ruslflokki hjá þjóðinni, algerlega óháð því hvað gáfnaljósin hjá Múdís halda.
Sigur þjóðarinnar er svo afgerðandi í þessu Icesave-máli að bæði ríkisstjórnin og forustumenn atvinnulífsins ættu að hugsa sinn gang.
Þótt mörgum þyki það súrt er sannleikurinn sá, að sigurvegarinn í þessu mikla ágreiningsmáli, fremstur meðal jafningja, er ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé tímabært að hann stigi fram??
Funda strax eftir helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2011 | 22:13
Hvernig á að orða spurninguna?
Hin heimskunna íslenska auðkona, Björk Guðmundsdóttir, fékk Norræna húsið lánað undir hugðarefni sitt, sem er að koma auðlindum landsins undir ráðstöfunarvald stjórnmálamanna. Í því ágæta húsi fékk fólk tækifæri til þess að syngja uppáhöldslögin sín ásamt því að skrá sig á vefsíðu, sem boðar ríkiseign á auðlindum í þeirri trú að þar með væru þær í almannaeign, eða þjóðareign, eins og gjarnan er um talað.
Eins og eðlilegt er má Jóhanna Sigurðardóttir, verkstjóri ríkisstjórarinnar, vart vatni halda af hrifningu yfir framtakinu, enda færir það stjórnmálmönnum áður óþekkt völd í þessu landi, ef svo illa tækist til að fólk yrði platað til þess að afhenda stjórnmálamönnum á silfurfati eignir sem ættu að vera í dreifðri eignaraðild almennings. Sumir stjórnmálamenn svífast einskis til þess að auka vald sitt og miðstjórnarvald ríkisins. En hvernig gæti þjóðaratkvæðagreiðala um eignarhald á orkuauðlindum og nýtingu þeirra farið fram? Hver ætti spurningin að vera, sem lögð yrði fyrir almenning? Ætti hún að hljóða svona: Vilt þú að auðlindir Íslands verði í almannaeigu, eða þjóðareign? Eða ætti hún að hljóða svona: Vilt þú að stjórnmálamenn í umboði ríkisins hafi algert ráðstöfunarvald á auðlindum Íslands, hvort sem þær eru á sjó eða landi? Eða ætti spurningin að hljóða einhvern veginn öðru vísi?
Eru stjórnmálmenn ekki orðnir svolítið frekir til valdsins í þessu landi? Og hættulegastir eru þeir sem bæði bera fyrir sig þjóðina og almenning og telja sig vera í sérstöku umboði hans. Það umboð á sér eðlilega takmörk, þótt sumir stjórnmálamenn vilji hafa það takmarkalaust.
Jóhanna fagnar undirskriftum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2010 | 21:27
Vinir lýðræðisins að störfum?
Andstæðingar Silvios Berlusconis geta ekki sætt sig við það að hann skuli hafa staðið af sér vantrauststillögu í ítalska þinginu. Viðbrögðin eru þekkt meðal uppþotsmanna á vinstri væng stjórnmálanna - óeirðir og eignaspjöll, skemmdarverk og ofbeldi. Lögum verður væntanlega ekki komið yfir þennan skríl, frekar en þá, sem réðust með ofbeldi á alþingi Íslendinga fyrir tveimur árum síðan. Maður spyr sig hvort réttarríkið og lýðræðið sé að bresta og láta undan ofbeldisfólki, sem engu eirir, en hefur stöðugt í hótunum við alla þá sem veita viðnám.
Það væri áhugavert lokaprófsverkefni fyrir ungt fólk í fjölmiðlafræðinámi að draga saman hvað íslenskir prentmiðlar hafa sagt um Berlusconi og ítölsk stjórnmál síðast liðin tvö ár, eða svo. Það myndi auðvitað sýna hve fjölmiðlarnir, eða öllu heldur fjölmiðlungarnir, hér á landi eru lélegir.
Gæti umsögnin hljómað svona: "Hann er mjög upptekinn af óeðlilegu sambandi við konur?"
Mikil harka í mótmælum í Róm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.12.2010 | 22:43
Er Sjálfstæðisflokkurinn að bresta?
Ef spádómar Ásgerðar Flosadóttur ganga eftir þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki að kemba hærurnar. En hvers vegna er millistéttin á Íslandi að tapa aleigunni? Er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði brugðist?
Ekki var hann við völd þegar verðtrygging var leidd í lög, og ekki var hann heldur við völd þegar frjálst framsal á kvóta var heimilað.
Og furðulegt er að Fjölskylduhjálp Ísland skuli ná hæstu hæðum einmitt þegar norræna velferðarstjórnin situr að völdum á Islandi
Telur millistéttina enda í fátækt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.12.2010 | 22:21
Afbrotafólk krefst réttarfars eins og í Þriðja ríkinu
Óvenju treglega hefur gengið að koma lögum yfir ógæfusöm ungmenni, sem ákærð voru fyrir árás á alþingi. Slík árás varðar við lög og refsiramminn gefur dómara vart svigrúm til annars en að dæma til fangelsisvistar. Satt best að segja vekur nokkra undrun að eigi skuli vera búið að ljúka málsmeðferðinni, þar sem tvö ár eru nú liðin frá atburðunum. Dómarinn er augljóslega skítsmeykur við pólitíska andrúmsloftið, sem umlykur alla umgjörð málsins, þótt að sönnu sé málið lögfræðilega einfalt í eðli sínu. Brotamennirnir níu leita nú eftir stuðningi almennings við hið ólöglega athæfi sitt og boða auk þess til samstöðuaðgerða á þingpöllum 8. desember næst komandi. Þetta ágæta fólk hegðar sér eins og harðsvíraður nauðgari, sem hótar endurkomu sinni til fórnarlambsins verði ekki látið að kröfum hans, sjálfsagt í því skyni að vekja ótta hjá bæði starfsfólki alþingis og dómara málsins.
Öll þessi framganga minnir mig á lýsingu dr. Gunnars Thoroddsens, sem Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur dregur fram í nýútkominni ævisögu Gunnars, þar sem hann lýsir þróun refsiréttarfarsins í Þriðja ríki nazistanna: Hér er ekki aðeins dæmt eftir lögum heldur líka samkvæmt gesundes Volksempfinden [heilbrigðri tilfinningu fólksins] og ef þetta tvennt rekst á ræður hið síðarnefnda. (bls. 99)
Og það er ekki bara í þessu furðumáli níumenninganna, sem réttarkerfið í landinu á í vök að verjast. En skyldi Ögmundur vita af þessu?
Stuðningsmenn níumenninganna boða aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.12.2010 | 18:10
Snúið uppá hendur lífeyrissjóðanna
Ríkisstjórnin áttar sig á því að ekki er hægt að láta lífeyrissjóðina slá hana kalda varðandi úrlausn á skuldavanda heimila. Það lítur illa út séð af sjónarhóli spunameistaranna, enda trúir almenningur því að hann eigi sjóðina. Það er rangt, hann aðeins borgar í þá, aðrir ráða. Ríkisstjórin rær nú lífróður og kastar eins miklu ryki í augu almennings og nokkur kostur er.
Þegar upp verður staðið hefur ekkert breyst - fjötrar þrælahalds verða lagðir á herðar fjölda Íslendinga, sem þeir munu ekki geta risið undir. Engin almannasamtök, eins og stjórnmálaflokkar og verkalýðsfélög munu æmta eða skræmta, því samtakamátturinn, í bili að minnsta kosti, ristir ekki dýpra en til þess eins að bjarga eigin skinni.
Maður eiginlega skammast sín fyrir þroskaleysi þessarar þjóðar.
Meginatriði samkomulags að nást | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.12.2010 | 17:11
Hver hefur áhyggjur af skuldurum?
Sérkennilegt er hvað vonir hinna skuldugu lifa lengi í samfélagi, sem er sérsniðið að þörfum kröfuhafa. Nýfallinn hæstaréttardómur segir allt sem segja þarf um stöðuna. Krafa er eign og stjórnarskrárvarin. Það væri ágætt ef almenningur, skuldum vafinn eins og skrattinn skömmunum, færi nú loksins að átta sig á því, að skuldari, sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar, er fyrirlitinn og forsmáður. Einskis nýtur og getur bara sjálfum sér um kennt, hvernig staða hans er. Bankar, lífeyrissjóðir og reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar, hafa engan áhuga á stöðu illra staddra einstaklinga (þeir hafa kennitölu, en ekki heimili), heldur sitja þeir eins og þrælahaldari, sem reiknar kalóríurnar ofaní þrælana, svo þeir hætti ekki að vinna. Þjóðfélag kröfuhafanna gefur aldrei neitt eftir nema fyrir útvalda.
Satt best að segja þykir mér sem kjaftur hæfi skel, að Jóhann Sigurðardóttir skuli veita ríkisstjórn á Íslandi forstöðu, á sama tíma og stritandi alþýða sér aðeins dimma daga, vegna yfirgangs kröfuhafanna, sem eru hægt, en örugglega, að koma óorði á eignarréttinn.
Svo er stjórnarandstaðan steinhissa að hún skuli ekki njóta trausts almennings. Hvað eru þeir að stússa í stjórnmálum sem ekkert eiga erindið?
Mikil óvissa í Stjórnarráðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Mars 2012
- Október 2011
- September 2011
- Apríl 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Nóvember 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Apríl 2006
Bloggvinir
- jonvalurjensson
- axelaxelsson
- baldher
- bjarnihardar
- bjarnimax
- gattin
- baenamaer
- carlgranz
- egill
- frjalshyggjufelagid
- gesturgudjonsson
- gudni-is
- duna54
- zeriaph
- halldorjonsson
- hannesgi
- blekpenni
- hildurhelgas
- astromix
- enoch
- johannst
- jonmagnusson
- kolbrunerin
- credo
- krist
- magnusthor
- martagudjonsdottir
- ragnhildurkolka
- fullvalda
- fullveldi
- siggileelewis
- valdimarjohannesson
- vey
- thjodarheidur