Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

"Fræðikona" fer á taugum.

Ung “fræðikona” við Háskólann á Akureyri, Andrea Hjálmarsdóttir, virðist hafa fengið nett taugaáfall, þegar niðurstöður rannsóknar hennar voru henni ekki að skapi. Ein niðurstaðan var sú, að unglingsstúlkur nú telja í ríkara mæli en árið 1992, að konur ættu að sjá um þvotta á heimilum sínum, fremur en karlar. “Samanburðurinn á því sem var og því sem nú gerist er sjokkerandi”, hefur Fréttablaðið eftir hinni niðurbrotnu Andreu, sem dregur þá ályktun að nú hafi aldeilis verið sofið á verðinum í jafnréttisbaráttunni. Ég sá ekki betur en að talsmaður Jafnréttisstofu, hefði sömuleiðis farið á límingunum af sama tilefni í sjónvarpsfréttunum. Það hefur kannski alveg farið framhjá “jafnréttisdömunum” að heimilisstörf almennt í samtímanum fara eftir samkomulagi hjóna og sambýlinga. Þær geta þó huggað sig við það að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrum borgarstjóri og nú frambjóðandi fyrir Sf í Reykjavík, eldar ekki matinn heima hjá sér. Skyldi hún þvo þvotta og skúra gólf?


Höfundur Reykjavíkurbréfs ekur um pólitísk holt og móa

Stundum talar ritstjóri Mogga eins og véfrétt um stjórnmálin. Ein slík skrif birtust lesendum blaðsins í Reykjavíkurbréfi sunnudaginn 29. apríl 2007. Viðfangsefnið fjallaði um  mögulega kosti um stjórnarsamstarf að loknum kosningum 12. maí n.k. Satt best að segja þótti mér ekki sem skarpri greiningu væri beitt á ástandið, heldur stuðst við “kjaftatífur”, sem ritstjórinn hefur aðgang að til að upplýsa sig um ástand og horfur innan ólíkra stjórnmálaflokka. Merkustu niðurstöður “véfréttarinnar”, eftir talsverðar vangaveltur, voru þær að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að mynda stjórn með Vinstri grænum, og forðast bæri að hleypa Ólafi Ragnari, forseta vorum, að viðræðum um stjórnarmyndun. Eins og allir vita kemur atbeini forseta ekki að stjórnarmyndun, nema þegar slík skil eru á milli þingflokka, að vafi leikur á að mynduð verði ríkisstjórn, sem styðst við meirihluta alþingis. Forseti getur þó haft tiltekið frumkvæði, sem er í reynd ekki sterkara en svo, að það getur virkað sem svipa á stjórnmálaforingjana – en ekkert umfram það. Dettur einhverjum í hug að Ólafur Ragnar tæki sig til og myndaði utanþingsstjórn? Sannleikurinn er auðvitað sá að eftir kosningarnar mun Sjálfstæðisflokkurinn hafa öll spilin á hendinni. Hann mun geta myndað stjórn með Vg, Sf, eða hugsanlega Framsóknarflokknum. Skorti Framsókn kjörfylgi, er sá möguleiki fyrir hendi að mynda þriggja flokka stjórn til “hægri” með Frjálslyndaflokknum. Þessi kostur er aldrei nefndur í sömu andrá og þriggja til fjögurra flokka vinstristjórn. En Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að hafa svefnlausar nætur yfir hættunni á fjögurra flokka vinstristjórn, vegna þess að hvorki Sf, né Vg hugnast það, ef  samstjórn með Sjálfstæðisflokki er í boði. Og slík stjórn verður í boði, bresti Framsóknarflokk kjörfylgi. Með öðrum orðum: Leiðtogar Vg og Sf munu borða úr lófa formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar að stjórnarmyndun kemur. Samstjórn Sjálfstæðisflokks og Vg er einhver versti kostur sem hægt er að hugsa sér, vegna þess að Vg er meira til vinstri en grænt. Á milli foringja Vg og Sjálfstæðisflokks liggja engir þræðir, líkt og á milli Ólafs Thors og Einars Olgeirssonar, og höfundur Reykjavíkurbréfs gleymir því alveg í þessu samhengi, að sex þingmenn Sjálfstæðisflokks studdu ekki Nýsköpunarstjórnina. Hið sama kann að gerast nú. Margir þingmenn Sjálfstæðisflokks munu hafa mikla fyrirvara um slíkt samstarf við arftaka Sameiningarflokks alþýðu – Vinstri græna. Auk þess sem fjölmargir óbreyttir liðsmenn Sjálfstæðisflokksins myndu telja það glapræði. Ætli menn að ná skynsamlegum framtíðarmarkmiðum fyrir íslenskt samfélag, er ekkert annað í spilunum, en samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, bresti Framsóknarflokk fylgi svo um munar. Hin “illvígu átök, sem eru í til staðar í undirdjúpum Samfylkingarinnar”, sem höfundur Reykjavíkurbréfs telur tálma, munu hjaðna (séu þau annað en hugarburður Mogga), komist flokkurinn í stjórn, og Ingibjörg Sólrún verður ekki utanríkisráðherra, til að tala máli Evrópusambandsins, frekar en formaður Sjálfstæðisflokksins vill. Væri formaður Samfylkingarinnar ekki fullsæmdur af því að fást við velferðarmálefni?


« Fyrri síða

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband