Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
23.5.2007 | 23:19
Var vinstri andstaðan í Samfylkingu ofurliði borin?
Stefnuyfirlýsing hinnar nýju ríkisstjórnar er um margt óljós, nánast eins og óútfylltur tékki. Forsætisráðherra lýsti verklaginu við myndun stjórnarinnar ágætlega í sjónvarpinu í kvöld, þegar hann sagði að menn hefðu ekki verið að reyna að sannfæra hvorn annan um ágæti sjónarmiða sinna. Niðurstaðan varð því óhjákvæmilega bærileg samsuða úr nýlegum landsfundarályktunum Sf og Sjálfstæðisflokks, sem flestir landsmenn geta í reynd samsinnt í aðalatriðum. Báðir flokkar geta því sæmilega unað við sitt, sem og landslýður allur. Engum bátum verður ruggað, en við því má búast að ríkisútgjöld verði umfram gott hóf, eins og gjarnan gerist við þátttöku sósíalista í ríkisstjórnum. Náist hins vegar markmið ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, þurfa vinnufúsar hendur hér á landi engu að kvíða. En sé eitthvað eftir af róttækum vinstrimönnum í Sf geta þeir farið að flýta sér yfir í Vg, ef þeir eru ekki þegar farnir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 20:48
Framsókn reitir trompin úr höndum formanns Sjálfstæðisflokksins.
Athyglisvert var að horfa á varaformann Framsóknarflokksins í Kastljósi sjónvarpsins áðan fokillan út í forustu Sjálfstæðisflokksins. Af orðum hans er ljóst, þykir mér, að flokkarnir hafi verið búnir að ganga frá málefnum að mestu, en strandað hafi á kröfuhörku Framsóknarflokks til ráðherraembætta. Sé alvarleg illska hlaupin í menn má við því búast að framsókn kunni að bjóða minnihlutastjórn Vg og Sf vörn gegn vantrausti, sem gerir stöðu Ingibjargar erfiða, en veitir henni styrk í samningum við Sjálfstæðisflokk. Framsóknarmenn eru nú afartrúir þeirri hugmynd sinni að semja ýmist til vinstri eða hægri, eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Skyldi upphlaup framsóknar nú gagnvart Sjálfstæðisflokki hafa áhrif á samstarf í borgarstjórn Reykjavíkur?
17.5.2007 | 18:30
Sviðið opnast.
Formenn stjórnarflokkanna hafa í bili lagt á hilluna áform um að endurvekja stjórnina. Bera þeir fyrir sig ótraustan meirihluta. Að sönnu er hann tæpur. Framsóknarflokkurinn treystir sér greinilega ekki í bili til að endurvekja stjórnina án undangenginna formlegra viðræðna. Þær viðræður gætu þó leitt til nýs samstarfs með styrkingu frá Frjálslyndaflokknum, enda auðvelt að landa þriggja flokka ríkisstjórn til hægri, verði látið á það reyna með formlegum hætti. Slík nálgun auðveldar formanni Framsóknarflokksins að sannfæra eigin flokksmenn um það að réttast sé að taka þátt í ríkisstjórn, enda hefur enginn ágreiningur um málefni verið uppi á borðum. Ég hygg að sá formlegi farvegur sem stjórnarmyndunarviðræður hafa nú farið í, sé biðleikur. Sjálfstæðisflokkurinn heldur Sf upptekinni á meðan formaður Framsóknarflokks sannfærir eigin flokksmenn um réttmæti frekari ríkisstjórnaraðildar, til þess þarf hann tíma, og leiða er leitað til að styrkja stjórnina með aðkomu frjálslyndra.
16.5.2007 | 17:31
Hvers konar minnihlutastjórn á að verja vantrausti?
Sósíalistunum í stjórnarandstöðunni hefur dottið það snjallræði í hug að þeir mynduðu minnihlutastjórn og Framsóknarflokkurinn myndi verja þá vantrausti, hann þyrfti hvort sem er að fara í pólitískan slipp og safna kröftum til átaka í framtíðinni. Svona hugsa og ýmsir ágætir framsóknarmenn, en varaformaður flokksins hefur tekið hugmyndinni fálega. Sé það hins vegar mat framsóknarmanna að þeir þurfi að taka sér frí frá stjórnarstörfum (sem mér finnst að vísu fráleitt í stöðunni nú) væri þá ekki skynsamlegra fyrir flokkinn að verja samstjórn Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndaflokks vantrausti. Þessi leikur væri örugglega skárri fyrir framsókn, en sá að koma Vg og Sf til valda. Það er engin ástæða til þess, þótt Framsóknarflokkurinn telji sig kannski þurfa að safna kröftum utan ríkisstjórnar, að vinna í leiðinni varanlegt skemmdarverk á þeim ágæta árangri sem þeir hafa náð á undanförnum árum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Auk þessa gæti framsókn auðveldlega varið Sjálfstæðisflokkinn einan vantrausti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2007 | 20:24
Nokkur góð ár án sósíalista í ríkisstjórn.
Ég hef verið talsmaður þess að kannað verði vandlega hvort grundvöllur sé fyrir því að núverandi ríkisstjórn verði styrkt með aðild Frjálslyndaflokksins. Sumir líta svo á að stefna þeirra í sjávarútvegsmálum og málefnum innflytjenda sé með þeim hætti, að samstaða geti ekki náðst. Slík rök halda ekki. Mörg önnur mál eru mikilvæg, reyndar mikilvægari, og styttra er í reynd á milli flokkanna í þessum málum er margur hyggur. Aðkoma Frjálslyndaflokksins að ríkisstjórn kallar ekki sjálfkrafa á grundvallarbreytingar í þessum málaflokkum, en hefur þann kost að hægt er að halda sósíalistum utan stjórnar í nokkur ár til og jafnvel til frambúðar. Séu aðrir kostir í boði fyrir Sjálfstæðisflokk, en að leiða til áhrifa sósíalista, svo ekki sé nú talað um vinstri sósíalista, eins og finnast í Vg, er rétt að hugleiða slíkt rækilega. Nokkur mikilvæg atriði blasa nú við að minni hyggju: (1) Stjórnin hélt velli, sem í reynd setur Frjálslyndaflokkinn í þá stöðu að spila varlega og skynsamlega, án upphlaupa,ætli hann að fá matið hæfur til stjórnarsamstarfs; (2) Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokks, hefur aðeins stýrt flokknum í níu mánuði og þarf lengri tíma til að gera sig gildandi, það gerir hann best með ríkisstjórnarþátttöku; (3) klassískur funi brennur enn á milli sósíaldemókrata og vinstri sósíalista, líkt og verið hefur frá upphafi; (4) styrking ríkisstjórnarinnar til hægri fækkar verulega pólitískum upphlaupum, og gerir henni kleift að ná áður óþekktum hæðum í eflingu velferðar og atvinnulífs á Íslandi.
14.5.2007 | 18:14
Hvernig ríkisstjórn þurfum við?
Spekingarnir spá og spekúlera um væntanlega ríkisstjórn þessa dagana. Stjórnarflokkarnir halda velli og verður það að teljast pólitískt afrek, þótt Framsóknarflokkur sé verulega laskaður. Kjósendur hafa að minnsta kosti ekki fengið leið á stjórnarforustu Sjálfstæðisflokks. Sú krafa er beinlínis uppi að flokkurinn leiði ríkisstjórn. Ég hef verið talsmaður þess að styrkja þurfi ríkisstjórnina til hægri, með því að bjóða Frjálslyndaflokknum ríkisstjórnarþátttöku. Ljóst er að 3 af 4 þingmönnum Frjálslyndra hafa áður átt samleið með Sjálfstæðisflokki og einn átti áður samleið með Framsóknarflokki, en hrakist burt. Nú væri skynsamlegt fyrir stjórnarflokkana að grafa stríðsöxina gagnvart þessum mönnum, hvetja til sátta og ráðast í samstarf, sem leiðir af sér sterka velferðar- og atvinnulífsstjórn. Þeir myndu að sama skapi sýna sáttarvilja. Almenningi yrði sýnt fram á með eftirminnilegum hætti, að hægt er að mynda slíka stjórn án þátttöku sósíalista. Samstjórn Sjálfstæðisflokks og Vg yrði of veik og of dýru verði keypt, og ríkisstjórn sjálfstæðismanna og Sf yrði því marki brennd að hluti Sf myndi vera í stjórnarandstöðu í mörgum málum. Ég hef leyft mér að mynda ríkisstjórn í þessum anda og býst við að hún sé ekkert verri en hver önnur.
Forsætisráðherra Geir H. Haarde
Menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Samgönguráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson
Félagsmálaráðherra Kristján Þór Júlíusson
Iðnaðar- og viðsk.rh Illugi Gunnarsson
Heilbrigðis-og tr.rh. Árni Mathiesen
Dómsmálaráðherra Bjarni Benediktsson
Umhverfisráðherra Einar Guðfinnsson
Fjármálaráðherra Jón Sigurðsson
Landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson
Sjávarútvegsráðherra Guðjón Arnar Kristjánsson
Utanríkisráðherra Jón Magnússon
Forseti Alþingis Sturla Böðvarsson
Einhverjum kann að þykja hlutur kvenna rýr í roðinu í þessari upptalningu og mætti þá mér að meinalausu skipta Illuga út fyrir Guðfinnu Bjarnadóttur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 00:37
Er eitthvað að marka kosningaspár?
Hinn 5. maí s.l. (það var áður en Björn Bjarnason klúðraði ríkissaksóknaraembættisveitingunni, sem kostaði Sjálfstæðisflokkinn umtalsvert fylgi, og trúlega enn meira ef Jóhannes kaupmaður í Bónus hefði ekki hvatt almenning til fylgilags við flokkinn) setti ég fram á bloggi mínu kosningaspá, sem stóðst sæmilega. Það vakti athygli mína strax hve fjölmiðlafyrirtæki og fjölmiðlafólk var upptekið við það að spá í spilin eins og sagt er, en á forsendum sem stóðust illa. Málefnin viku fyrir bullinu í álitsgjöfunum og háttvirtur kjósandi var litlu nær um hin raunverulegu mál. Sannleikurinn er sá að Ísland stendur í dag frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum, þar sem pólitísk hugmyndafræði 19. og 20. aldarinnar verður skilin eftir, eins og hver annar draugur, sem ekkert erindi á við samtíðina. Íslenska fleyið skipar góð áhöfn og mannskapurinn í brúnni má ekki klikka. Á svipaðan hátt og íbúar sósíalisku ríkja Austur-Evrópu losuðu sig við óværuna í lok síðustu aldar, eigum við að losa okkur við leifar hennar hér á landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.5.2007 kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 21:53
"Þríhjólsstjórnin" blasir við.
Gaman var að horfa á formenn stjórnmálaflokkanna ræða saman í sjónvarpssal að loknum kosningum. Ljóst er að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur öll tromp á hendinni. Ríkisstjórnin heldur velli og til Bessastaða er leiðin löng. Bóndinn á þeim bæ fær ekki að vera með á ballinu. Ríkisstjórnin lafir, en þarf að styrkja sig. Hvernig getur hún það? Með því að kippa Frjálslyndaflokknum inn, enginn vafi. Nú gefst tækifæri til þess að mynda öfluga velferðarstjórn til hægri, sem tekur á erfiðu málunum þeim megin, en heldur áfram að liðka fyrir framrás atvinnulífsins. Hið ríka Ísland setur sér það markmið að skilja engan útundan. Ný ríkisstjórn af þessu tagi er fær um að sýna fram á það að enga sósíalista þarf til þess að skapa traust velferðarsamfélag, þeir verða skildir eftir; daga uppi. Stjórnmálaferill Ingibjargar Sólrúnar verður endaslepptur, og hinu versta úr stjórnmálahugmyndafræði 20. aldarinnar verður hent á hauga. Og Steingrímur J. heldur bara áfram að vera kommi. Á þeim þarf íslenska samfélagið ekki að halda. Ég er alveg hissa á því hve nærri spá mín var raunverulegum kosningaúrslitum, en þetta má lesa á bloggi mínu.
7.5.2007 | 15:08
Þegar öllu er á botninn hvolft
Núna streyma kosningabæklingarnir inn um bréfalúgur landsmanna. Þeim er ætlað það hlutverk að upplýsa háttvirtan kjósanda um stefnumál flokkanna, sem í boði eru. Einhverra hluta vegna er ég litlu nær um tilgang og markmið í öllum loforðaflauminum. Einn bæklingur finnst mér þó skera sig úr, því hann byggir á raunsæi. Forsíðu hans prýða foringjar Sjálfstæðisflokksins, þau Geir og Þorgerður Kartín, og hin skynsamlegu orð:Þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið. Sannleikurinn er auðvitað sá að kjósendur vita hvað þeir hafa, en vita ekki hvað þeir fá. Þótt félagshyggjuflokkarnir núi Sjálfstæðisflokknum gjarna um nasir, að bera ekki hag þeirra sem minnst mega sín fyrir brjósti, er það beinlínis hrein sögufölsun. Sósíalismi Sjálfstæðisflokksins er fremur af toga kristilegs hugarfars, en skömmtunarsósíalisma þeirra, sem kenna sig við félagshyggju. Einhver snjallasti leikur síðari ára í stjórnmálum var leikinn af formanni Sjálfstæðisflokksins, er hann greindi frá því í síðustu landsfundarræðu sinni, að framvegis yrðu öryrkjar metnir út frá því hvað þeir gætu unnið, en ekki því, hversu veikburða þeir væru. Ég spái því að þessi nálgun muni gjörbreyta aðstæðum fjölmargra öryrkja, öllum í hag, á komandi árum. Merkilegt hvað fjölmiðlar hafa lítið fjallað um þessa merku réttarbót.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.5.2007 kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2007 | 15:57
Velferð og kosningaspár.
Í aðdragana komandi kosninga hafa bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar verið of uppteknir af því að ræða niðurstöður skoðanakannanna. Fyrir vikið hafa málefnin nokkuð þurft að þoka. Hin svokölluðu velferðarmál eru þó að verða sífellt fyrirferðarmeiri, eftir því sem nær dregur kosningum í málatilbúnaði allra flokka. Enginn stjórnmálaflokkur vill gera nokkrar athugasemdir við sífellt aukna velferð, einkum og sér í lagi til þeirra sem minna mega sín, eins og það er alltaf kallað. En fjármokstur velferðarinnar er að taka á sig nýja mynd. Nú skal þeim, sem ágætlega eru staddir, úthlutað skattfé í nafni jafnréttis. Jafnan hefur hraustu fólki, sem hefur atvinnu og er iðjusamt, tekist að komast ágætlega af í þessu þjóðfélagi hingað til. Jafnvel þótt það hafi orðið þeirrar hamingju aðnjóandi að eignast börn. Allir stjórnmálaflokkar keppast við að lofa ungu fólki og öldruðu gulli og grænum skógum, en hinum miðaldra, sem hvort sem draga vagninn í þjóðfélaginu er engu lofað. Þeir geta séð um sig sjálfir, og gera það. Þessi staðreynd leiðir eðlilega hugann að því að efnahags- og atvinnulífið og sá aðbúnaður sem því er skapaður skiptir höfuðmáli. Sé einskis aflað, geta stjórnmálamenn engu úthlutað. Þetta er ágætt að hafa í huga. Og svo er það spáin mín. Vg 15%, Sf 25%, Sjálfstæðisflokkur 38%, Framsóknarflokkur 12% (stjórnin rétt lafir), Frjálslyndir 8%, Íslandshreyfingin 2%. Er þetta eitthvað verra en hvað annað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Mars 2012
- Október 2011
- September 2011
- Apríl 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Nóvember 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Apríl 2006
Bloggvinir
- jonvalurjensson
- axelaxelsson
- baldher
- bjarnihardar
- bjarnimax
- gattin
- baenamaer
- carlgranz
- egill
- frjalshyggjufelagid
- gesturgudjonsson
- gudni-is
- duna54
- zeriaph
- halldorjonsson
- hannesgi
- blekpenni
- hildurhelgas
- astromix
- enoch
- johannst
- jonmagnusson
- kolbrunerin
- credo
- krist
- magnusthor
- martagudjonsdottir
- ragnhildurkolka
- fullvalda
- fullveldi
- siggileelewis
- valdimarjohannesson
- vey
- thjodarheidur