Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einskis virði stuðningsyfirlýsingar

Skyldi Georg Brown hinn breski vera með í stuðningsyfirlýsingunni. Þetta er nú meiri loddaraskapurinn í þessu Evrópusambandi. Sannleikurinn er sá að þeim er alveg sama um okkur, en vildu gjarnan hafa okkur innanborðs þar sem þeir gætu hætt okkur og smánað og látið okkur ganga í óhreina tauinu af stóru þjóðunum, líkt og niðursetningar væru. Við eigum strax að snúa okkur að alefli að Norðmönnum, því þar eigum við vini, þrátt fyrir allt, og taka upp norska krónu, sé þess nokkur kostur.
mbl.is ESB-leiðtogar styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er gjaldeyrisþurrð?

Talsmenn atvinnulífsins tala nú daglega um vandann, sem skapast hefur vegna gjaldeyrisskorts. Ekki er hægt að flytja inn vörur sem fyrr og Seðlabankinn forgangsraðar eftir vöruflokkum. Hvað er eiginlega að ske? Ég man ekki betur en að málsmetandi menn hafi sagt gjaldeyrisforða þjóðarinnar svo öflugan fyrir örfáum vikum síðan, að hægt væri að flytja vörur til landsins í níu mánuði, án þess að nokkur útflutningur kæmi á móti.

Getur einhver sagt mér hvað fór úrskeiðis? Var verið að skrökva að mér allan tímann? Nú kemst ég ekki í vetrarfrí til útlanda (tek aldrei sumarfrí), vegna þess að ég get ekki treyst erlendum hraðbönkum um afgreiðslu og ekki vil ég kaupa gjaldeyri á uppsprengdu verði á svörtum markaði.

Hverjir fluttu gjaldeyrinn úr landi með slíkum hraða, að níu mánaða forðinn hvarf á tveimur vikum?


Lifir ríkisstjórnin af gjaldeyris- og bankakreppu?

Ýmislegt bendir til þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks muni ekki lifa af djúpa gjaldeyris- og bankakreppu. Í stað þess að vera samstíga í því að leita allra mögulegra leiða til þess að  leysa vandann í bráð, einblínir annar samstarfsflokkurinn á framtíðarlausn, ef lausn skyldi kalla, sem liggur í inngöngu í EB og upptöku evru. Í þeim kringumstæðum sem nú ríkja er allt tal um inngöngu í EB og upptöku evru, helbert lýðskrum, til þess fallið að gefa almenningi falsvonir. Vandi Íslands er bráðavandi, en ekki framtíðarvandi. Greini stjórnmálamennirnir ekki þarna á milli mun illa fara.

Sjálfstæðisflokkurinn á strax að taka upp leynilegar trúnaðarviðræður við Vg, Framsóknarflokk og Frjálslyndaflokkinn í því skyni að leysa bráðavandann. Samfylkingin ætlar ekki að leggjast á árarnar með þjóðinni; hún ætlar að nota ástandið til þess að sigla okkur til Brussell.


Fjárlög með halla

Embættismenn ráðuneytanna eru núna væntanlega allan sólarhringinn að endurskoða fjárlagafrumvarpið, sem lagt var fram á dögunum með 56 milljarða halla. Ástæðan er augljós - við höfum ekki efni á svona fjárlögum. Skikki verður ekki komið á þjóðarbúskapinn nema myndarlega verði skorið niður í heilbrigðis- og menntamálum landsmanna. Það þarf ekki endilega að þýða að þjóðin verði heilsuverri eða menntunarsnauðari, en í þessum málaflokkum liggja stórútgjöld ríkissjóðsins. Margt annað má gera í sparnaðarskyni, sem ekki er svo sársaukafullt að framkvæma, en þarf lagabreytingar til. Þjóð í krítískum efnahagsvanda getur hæglega lagt niður feðraorlof og sparað nokkra milljarða, þótt mæður haldi orlofsrétti sínum, enda er ungum feðrum hollt að halda sér að vinnu. Afnema má lög um Jafnréttisstofu og spara nokkra tugi milljóna, enda starfar hún á grundvelli pólitískrar hugmyndafræði, sem í reynd er innihaldslaus merkingarleysa, engum til gagn, nema þeim sem þar starfa. Eins má tímabundið afnema lög um umhverfismat, svo gerlegt sé að flýta nauðsynlegum framkvæmdum í landinu, sem kalla á erlenda fjárfestingu.

Og svo er bara að vona að Ísland tapi kapphlaupinu um sæti í Öryggisráðinu, því slík niðurstaða sparar mörg hundruð milljónir af skattfé. Margt annað má spara í útgjöldum hins opinbera, sem er bara fáránlegt splæs og þar gætu sveitarfélögin aldeilis tekið tak.


Að segja sig til sveitar

Raddir um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að endurreisn gjaldeyrisforða Íslands gerast háværari. Þetta er vond hugmynd, vegna þess að þessi ágæti sjóður kann ekkert betur að fást við vanda landsins, en innfæddir hagfræðingar og stjórnmálamenn. Hann hefur að vísu yfir að ráða valútu, sem er okkur svo mikilvæg núna, þegar allt atvinnulíf er komið að fótum fram vegna gjaldeyrisskorts. Þjóðin er ekki bjargþrota og þarf ekki að segja sig til sveitar. Augljóst er að allt þetta ár hafa menn verið að leita hófanna um lán, en fengið dræmar undirtektir. Þess vegna leitar forsætisráðherra til Rússa um mitt þetta ár, eins og hann hefur sjálfur upplýst.

Niðurstaða um kjör og skilmála á láni Rússa til Íslendinga mun fást öðru hvoru megin við næstu helgi, að loknu kjöri til Öryggisráðs Sþ. Svo mega menn ekki gleyma því að fjármálaráðherrann er núna staddur vestanhafs og ræðir vafalaust mögulega lánafyrirgreiðslu Bandaríkjanna til Íslands. Enginn vafi er á því að þrýstingur er innan bandaríska stjórnkerfisins að ríkulega verði stutt við bakið á Íslendingum, því að öðrum kosti muni Ísland endanlega ganga þeim úr pólitískri greip. Ég giska á að nú um stundir séu svo mörg tilboð innan seilingar, að við vitum ekki okkar rjúkandi ráð - Japan, Bandaríkin, Rússland, Noregur og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Menn þurfa góðan frest til að meta öll tilboðin. 


Hvað fer í malinn til Moskvuferðar.

Okkar bestu menn munu nú sitja við samningagerð í Moskvu um gjaldeyrislán Rússa til Íslendinga. Ekkert vitum við um kjörin enn sem komið er og kannski fáum við ekki að vita allt fyrr en eftir 50-100 ár, ef samningar takast. En væri ekki gott að hafa í farteskinu eins og stóra olíuhreinsistöð handa Rússum og risavaxin hafnarmannvirki til fjölnota. Við gætum svo í leiðinni óskað eftir björgunarþyrlusveit, sem gæti hægast haft aðstöðu til æfinga og athafnasemi á Keflavíkurflugvelli,að því gefnu að Rússar borguðu brúsann.

Okkar tími er greinilega að koma. Nú er að sjá hverjir klúðra kjörstöðu!!


Milljarðalínan London - Reykjavík

Harðnaglinn í London, George Brown, sem jafnan lítur út eins og óumbúið rúm, ekki mjög ólíkur Össuri með hraði, hefur upplýst um gríðarlega fjármagnsflutninga á milli London og Reykjavíkur að undanförnu, ef eitthvað er að marka fréttir fjölmiðla.

Geta íslensk yfirvöld staðfest þetta og kannski upplýst hverjir voru að flytja peninga og í hvaða banka þeir fóru? Eða er þetta pólitískt loddarabragð stjórnmálamanns í þröngri stöðu? Þeir leynast víða lýðskrumararnir.


Að skjóta mús með fallbyssu.

Það er ekki uppá Bretana logið í samskiptum við "stórasta land í heimi". Alltaf svolítið ýktir þegar alvöru hagsmunir eru í húfi. Flest munum við öslandi herskip í íslenskri landhelgi, eiginlega út af engu, þegar öllu var á botninn hvolft. Ágreiningsefnin þá voru þeim í óhag og andstæð. Vinir okkar þá kenndu þeim að láta ekki illa við "litlasta landið" í Nato. En nú eigum við barasta enga vini og Bretarnir svo hundheppnir að vera búnir að setja lög um hryðjuverkavarnir. Hversu lágt geta þessir Samfylkingarmenn í Bretlandi lagst? Maður er hissa á því hvernig augljós misskilningur, eða tungumálaörðugleikar geta sett allt á annan endann í málum þar sem mikilvægt er að halda ró sinni.

Eigum við ekki bara að kenna Davíð Oddssyni um þetta allt? Háskólahagfræðingarnir vilja kenna honum um allt sem úrskeiðis hefur farið. Núna ræði ég efnahagsmál og viðbrögð við þrengingum við köttinn minn, því hann hefur ekki gefið síðri ráð en allt hagfræðingastóð greiningadeilda bankanna. Skyldu hinir nýju ríkisbankar þurfa á öllum þessum greiningardeildum að halda?


Seðlabanki Evrópu hvað?

Nú hamast þjóðir Evrópusambandsins hver um aðra þvera í björgunaraðgerðum, fyrir eigið skinn. Hver er sjálfum sér næstur, eins og jafnan er. Evrópski Seðlabankinn er bara í þeirri stöðu að hann getur engum hjálpað og hvað þá allri ómegðinni sinni. Hann deplaði ekki auga þegar hann gjaldfelldi 500 milljarða evrulán á Landsbankann og 800 milljarða á Kaupþingbanka, vitandi allan tímann að slík aðgerð setti íslenska Seðlabankann og ríkissjóðinn á slig. Þetta er Seðlabankinn í ríkjasambandinu, sem nú skal reynt að troða Íslendingum í. "Grunngerðin er í fínu lagi hjá okkur", eins og stjórnmálamennirnir segja, en hún er nú bara ekki betri en svo að heimilin í landinu er skuldsett upp í rjáfur, eins og skrattinn skömmunum. Krónan er að sönnu handónýt, en innganga í Evrópusambandið er vondur kostur. Nær væri að kanna upptöku noskrar krónu. Skyldu samningar um slíkt verða mjög flóknir? Er ekki viss, og má ekki vera bragð að fastsetja hana, eins og nú hefur verið gert.

Hverjir verða fyrstir?

Nú er væntanlega hafið pólitískt kapphlaup á milli Norðmanna, Rússa og Bandaríkjamanna um að hjálpa Íslendingum í efnahagsþrengingum. Rótin liggur í kapphlaupi um áhrif og aðstöðu vegna breyttra aðstæðna á norðurslóðum. Bandaríkin hafa að vísu svo kyrfilega komið sér út úr húsi hér á landi, að mikið þarf að komna til, svo þeir verði eftirleiðis teknir sem traustir bandamenn. Norðmönnum rennur sjálfsagt blóðið til skyldunnar, og Rússar lána okkur ekki gjaldeyri af góðmennsku einni saman. Nú er bara að sjá hvert þessara ríkja verður snarast í lánasnúningnum. Ég giska á Bandaríkjamenn. En  maður veit jú aldrei.
mbl.is Norðmenn reiðubúnir að veita Íslandi efnahagsaðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband