Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áhugaverður úrskurður

Þar sem ég hef aldrei upplifað fyrirtíðarspennu, af eðlilegum ástæðum, leikur mér forvitni á að vita hvernig svona spenna er mæld, því samkvæmt úrskurðinum er hér á ferðinni alvarlegur sjúkdómur. Leggst þessi alvarlegi lasleiki á allar konur, eða bara sumar? Hvað ræður spennustiginu, er það andlegrar gerðar eða líkamlegrar? Er þess að vænta eftir þennan úrskurð að vinnufærum konum fækki verulega vegna aukinnar tíðni fyrirtíðarspennu? Kann læknisfræðin engin tök á spennunni? Samkvæmt fréttinni ættu nokkur þúsund konur hér á landi að vera meira og minna óstarfhæfar vegna þessa. Er ekki rétt að íslenskar konur gangi í spor sænskra kynsystra sinna og krefjist bóta? Eða er hann kannski til íslenski fyrirtíðarspennubótasjóðurinn?
mbl.is Bætur vegna fyrirtíðaspennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæg þingmál?

Á meðan almenningur þessa lands og atvinnurekendur róa lífróður til þess að bjarga því sem bjargað verður um lífskjör í þessu landi, sitja stjórnarþingmenn á Alþingi og fjalla um dægurmál og ýmis hjartansmál sín, sem koma engum til bjargar í núverandi aðstæðum. Bann við nektarsýningum getur vart talist til mikilvægra forgangsmála í störfum Alþingis og engri vestrænni þjóð hefur dottið í hug að lögleiða slíkt bann, nema íslenskum þingmönnum, sem lætur betur að fást við hin léttvægari mál, fremur en þau sem skipta einhverju um lífsafkomu heillar þjóðar.

Alveg er það furðulegt að þingmenn skuli leggja stétt nektardansmeyja í einelti með þessum hætti, en vandinn er kannski sá að þær eiga sér ekki stéttarfélag og eru ekki í BSRB eða ASÍ og flestar af erlendu bergi brotnar.  Hér leggja þingmenn freklega til atlögu við atvinnufrelsi kvenna og frelsi þeirra til að fletta sig klæðum í atvinnuskyni. Ég hélt að konur réðu líkama sínum að öllu leyti og það væri ekki á vegum löggjafans að ákvarða almennt um klæðaburð og skemmtanir fólks. Það hefur verið grunnstef í frelsisbaráttu kvenna á undanförnum áratugum, t.d. um frjálsar fóstureyðingar, að þær réðu líkama sínum. En þegar kemur að því að fækka fötum á þessum sama líkama, þá ráða stjórnmálamenn för.

Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Og ekki bjóða uppá nauðungarrökin. Þau halda ekki.


mbl.is Fortakslaust bann lagt við að bjóða upp á nektarsýningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil eftirspurn eftir Jóhönnu forsætis

Það er ekkert skrítið að hún Jóhanna skuli ekki láta undan þrýstingi og stökkva á gylliboð um formennsku í Samfylkingunni. Það vilja hana færri en leikstjórar flokksins halda. Hún veit, en þeir ekki. Hin boðaða blysför að heimili Jóhönnu, eða var hún í vinnunni, var algerlega mislukkuð leikstjórn. En fjölmiðlarnir eru svo almennilegir að þegja yfir floppinu eins og kostur er. Þeir eru líka svolítið skömmustulegir, vegna þess að á þeirra vegum mættu fleiri í gönguna, en á vegum þjóðarinnar. En þeir þurfa ekkert að skammast sín, því þjóðin er alvön því að fjölmiðlarnir hlaupi í kringum Samfylkinguna, eins og leikskólabörn í kringum fóstrur sínar.
mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalrekinn Eva Joly

Það var nú aldeilis lán í óláni að hana Evu skylda hafa rekið á fjörur okkar Íslendinga. Hvílíkur hvalreki, Íslands óhamingju verður þá ekki allt að vopni. Það er engu líkara en að guð almáttugur hafi hafi snert íslenska jörð, slík er hrifningin og mikils er að vænta. Það er ekki ónýtt að fá að njóta alþjóðlegra sambanda rannsóknardómarans, enda vart að vænta að íslenskir saksóknarar, sem eru ekkert nema sveitakallar í samanburði við fransknorska djásnið, með ullarlagðana í rassgatinu, ráði við það að setja sig í samband við umheiminn.

Hún ætlar seint að yfirgefa okkur Íslendinga minnimáttarkenndin gagnvart útlendingum. Getur einhver í nafni upplýsingar og gagnsæis sagt okkur lúsugum almúgaskrílnum hvað erlendu samböndin hennar Evu munu kosta okkur í evrum talið?


mbl.is Hægt að nýta sambönd Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Jóhanna þverhaus að gefa sig?

Þegar þetta er ritað hefur ekki birst nein opinber yfirlýsing frá Jóhönnu forsætis um það að hún hafi látið undan þrýstingi samflokksmanna sinna. Hún var að vísu búin að segja að hún ætlaði ekki að taka að sér formennsku í Samfylkingunni, en enginn vill hlusta á það. Nú dugar auðvitað ekkert annað en blysför að heimili hennar eða vinnustað, eftir því á hvorum staðnum hún ver kvöldunum. Nú skal þverhausinn fá að finna fyrir raunverulegum vilja almennings í landinu, að sögn skipuleggjenda göngunnar. Mér er að vísu nokk sama hvort Jóhanna lætur undan þrýstingi eða ekki, en vona samt að hún geri það á endanum, þótt ég sé nú enginn sérstakur almenningur í þessu landi, eiginlega frekar slakur almenningur, held ég. Von mín á eftirgjöf Jóhönnu byggist á því að hún er raunverulega versti forustukosturinn. Hún hefur aldrei verið til forustu fallin í stjórnmálum, þótt pólitískt langlífi hennar sé nokkurt. 

Ég segi því: Áfram Jóhanna - fram til sigurs - þinn tími er kominn!!


mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frönsk fuglahræða af norskum uppruna

hefur nú verið ráðin ráðgjafi íslenskra stjórnvalda vegna rannsóknar á meintum efnahagsbrotum í hruni fjármálakerfisins. Þetta er greinilega rösk kerling, sem lætur ekkert pjatt aftra framgöngu sinni. Hún lætur strax vita af því að það sé eins og hver annar brandari að örfáar hræður skuli vera sinna bréfaskriftum við stofnanir hist og her í rannsóknarskyni, hér dugi ekkert annað en harðar aðgerðir með kröftugri nærveru (svona í anda Gestapo?) ef einhver árangur á að nást. Loksins fara hlutirnir að rúlla, maður segir nú ekki meir. Dómsmálaráðherrann var bara eins og skömmustuleg skólastúlka eftir yfirhalningu "Soffíu frænku" og hristir sjálfsagt fram úr erminni fé handa vöskum rannsóknarmönnum. Réttast væri auðvitað að nýji ráðgjafinn um rannsóknarstörf og handónýtt íslenskt réttarfar, smali saman reyndum erlendum rannsakendum í anda nýja siðar.

Vill svo einhver, í anda upplýsingar og gagnsæis, greina frá því hvað rannsóknardómarinn kostar skattgreiðendur í landinu.


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsku Jóhanna viltu vera svo væn

að taka að þér að vera formaður Samfylkingarinnar, þótt ekki væri nema bara um stundarsakir, í mesta lagi fram yfir kosningar. Þú veist að mjög erfitt er hjá okkur rétt í augnablikinu, Ingibjörg lasnari en hún hélt, Dagur óreyndur, þannig séð, Ágúst Ólafur úrvinda, Össur búinn að yfirgefa leiðtogastarfið að eilífu (hann var bara biðleikur, eins og þú manst og leggur ekki aftur í þig), og hvað er þá eftir? Viltu helvítis ódáminn hann Jón Baldvin eða hvað? Auðvitað eru sprettir í kallinum, en þú veist alveg að hann nær ekki að halda kommunum í flokknum. Bara þú ert nógu róttæk til þess, eða þannig. Auðvitað er snjallt hjá þér að halda fjölmiðlunum volgum dag eftir dag og þannig geturðu verið meira og meira í fréttatímunum, en get ég ekki alveg treyst því að þú munir láta undan sanngjörnum og réttmætum, svo maður tali nú ekki um stéttvísum, þrýstingi. Þú verður að skilja að fólkið í landinu trúir og treystir á þig, þótt það hafi aldrei gert það fyrr. Þinn tími er kominn; þú verður að svara kalli, eða var þetta bara plat allan tímann? Þú getur að minnsta kosti náð þér endanlega niðri á Jóni Baldvini og hann var nú ekki alltaf næs við þig, manstu? Svo áttu að vera virkilega snjöll Jóhanna og gera þá sjálfsögðu kröfu (þið vinnið þannig í Samfylkingunni er það ekki?) að hann Kristján Möller taki að sér varaformennskuna, þannig nær þéttbýlið og dreifbýlið svo góðum takti saman, er það ekki? Veistu Jóhanna, mér finnst bara að þú sést í endalausum pólitískum dauðafærum lífs þíns. Ekki brenna af, plís. Þú kemst örugglega í sögubækurnar, en hvernig viltu láta fjalla um þig? Svo við einföldum samlíkinguna: Hvort viltu vera Davíð eða Þorsteinn? Og ekki segja hvorugur, því þá ertu enginn þannig séð!!
mbl.is Þrýstingur á Jóhönnu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalveiðar eða Ólafur Ragnar

Upplýsinga- og kynningarfulltrúi Icelandair í Mið-Evrópu, Arthúr Björgvin Bollason, upplýsir okkur Mörlandana og þýsku þjóðina sömuleiðis, í erindi, sem hann flutti í kauphöllinni í Frankfurt nýverið (hvað var hann annars að gera í kauphöllinni?), að Ólafur Ragnar hefði talað tóma vitleysu um daginn í Þýskalandi og að harður tónn væri í fréttaflutningi þýskra fjölmiðla vegna áforma um takmarkaðar hvalveiðar við Ísland.

Það er að vísu óþarft að segja frá því að Ólafur Ragnar sé orðinn að aðhlátursefni um víða veröld, svo frúnni sé nú ekki bætt við, en það eru ýkjur, að halda því fram að þýska þjóðin sé að fara á límingunum vegna hvalveiða Íslendinga. Að sönnu taka stöku fjölmiðlamenn andköf, þegar hvalveiðar ber á góma, og er heilkennið landamæralaust að mestu. En trúlega eru andstæðingar hvalveiða að hrekjast út í horn, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, vegna þess að í ljós er að koma, að veiðarnar eru stofnunum skaðlausar.

En hefur upplýsinga- og kynningarfulltrúa Icelandair í Mið-Evrópu nokkuð yfirsést að halda á lofti sanngjörnum og réttmætum sjónarmiðum Íslendinga í hvalveiðimálum? Hefur kannski meiri tíma verið eytt í að lappa upp á ímynd Bessastaðaflónsins?


mbl.is Sniðganga íslenskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir, nema Jóhanna forsætisráðherra vita

Að þingstörfum verður ekki haldið áfram verði þing rofið. Í hvaða Undralandi er ég eiginlega staddur. Halda stjórnarflokkarnir, væntanlega með fulltingi Framsóknarflokks, að almenningur í þessu landi séu fífl og asnar? Löggjafarstörf fara ekki fram eftir að þing hefur verið rofið, nema í Undralandi og Þykjustulandi. Mér þykir það leitt, en annaðhvort er fréttin á mbl.is eitthvað skrítin, eða þá að forustumenn ríkisstjórnarinnar ganga ekki heilir til skógar!! Hvort er það?
mbl.is Hægt að halda áfram þingstörfum eftir þingrof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver ber ábyrgð á ríkisstjórninni?

Sigmundur Davíð, hinn ungi og óreyndi formaður Framsóknarflokksins, er að átta sig á því, að hann og hans flokkur ber ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Honum er orðið órótt vegna þess að ekkert af því sem lagt var upp með hefur gengið fram, nema brottreksturinn á Davíð Oddssyni seðlabankastjóra. Atvinnulífið, hið raunverulega gangverk samfélagsins, er í molum, og fólk hefur misst vinnuna í stórum stíl. Atvinnuleysistryggingasjóðurinn er að tæmast, vegna þess að stjórnmálamennirnir fórnuðu honum á jafnréttisaltari fæðingarorlofsins, svo hægt væri að borga hátekjumönnum peninga á vegum skattgreiðenda, fyrir það eitt að vera heima hjá sér og horfa á nýfædd börn sín. Menn trúðu ekki að atvinnuleysið myndi banka á dyrnar í uppsveiflunni.

Unga fólkið er í stórum stíl að missa íbúðarhúsnæði sitt vegna verðtryggingar og hárra vaxta, en ríkisstjórnin er ekki að gera neitt. Neyðarástand, vonbrigði, hryggð og upplausn ríkja, en engin talar kjark í þjóðina og er engu líkara en að öllum sé slétt sama. Engin örvandi hönd eða hughreystandi rödd hvetur til dáða. Ríkisstjórnina skipa úrræðalausir aumingjar og upphlaupslýður, sem ætlar sér að innheimta pólitískan skyndigróða í næstu kosningum. Hversu lágt ætlar Framsóknarflokkurinn að leggjast? Ætlar ungur formaður flokksins að láta það á sig sannast að hann hafi á fyrstu dögum stjórnmálaferils síns brennt af í dauðafæri, og það trekk í trekk. Er alveg víst að kosningar fari fram í vor?


mbl.is Vill rjúfa þing 12. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband