Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kylfan og piparúðinn

Alveg er það magnað hvernig formið er ævinlega að bera efnið ofurliði. Í sjónvarpsfréttum í kvöld mátti heyra að lögregla hefði verið kvödd að fjölbýlishúsi í úthverfi í Reykjavík vegna hávaða. Á vettvang mæta ung lögreglukona, komin undir þrítugt, með full skólaréttindi lögreglumanns og ungur fullburða karlmaður, sem ekki hafði lokið fullu réttindanámi lögregluþjóna. Samt var hann nú að störfum.

Skiptir engum togum að hávaðaseggirnir, pólskir innflytjendur, ganga í skrokk á lögregluþjónunum sem kallaðir voru á vettvang, og þeir liggja óvígir eftir á vettvangi. Sú skólagengna var eðlilega strax ofurliði borin, en ungi nýliðinn sem var auðvitað laminn í klessu hafði ekki réttindi til að bera varnaráhöld, eins og kylfu og piparúða. Hver er sinnar gæfu smiður, segir máltækið. En er það svo þegar búið er að fjarlægja hamarinn og sögina? Hvers konar lögga er það sem ekki hefur kylfu og varnarúða?

Þessar nöturlegu aðstæður minna mig á frétt frá Bretlandi fyrir ekki svo mjög löngu síðan, er tvö börn féllu undan flotholti á allstórri tjörn og lá við drukknum. Á vettvang kom lögreglupar og stakk ungi maðurinn sér til sunds og bjargaði börnunum, og þótti afrekið nokkurt þrekvirki. En bæði hann og yfirmenn hans fengu eftir á skömm í hattinn vegna þess að hann hafði ekki lokið tilskyldum prófum til að þreyta afrek af þessu tagi. Þetta auðvitað staðfestir grun hins almenna borgara um það að löggan er smátt og smátt, en örugglega, að breytast í skrifstofulöggu.


EB aðild eða stjórnarslit

Jón Baldvin var áðan í ágætu viðtali við Egil Helgason, fjölmiðlamann. Eins og kannski við var að búast lék hann ágætlega hlutverk hýenunnar (þær eru margar á sveimi), sem situr yfir höfuðsvörðum íslenska efnahagslífsins. Vart var við því að búast að hann viki langt frá níðingshætti félaganna Browns og Darlings. En kostir Íslendinga eru klárir í hans huga: EB aðild eða stjórnarslit. Þá höfum við það.

Samfylkingin ætlar ekki að taka þátt í endurreisn Íslands, nema með skilyrðum. Þjóðhollir menn verða nú að fylkja liði. Alþjóðahyggju sósíalismans má ekki auðnast að leggja íslenska hagsmuni í skúffu suður í Brussell


Hvernær er einelti einelti og hvenær ekki?

Hið ástsæla söngvaskáld Hörður Torfason hefur vart opnað munninn áratugum saman án þess að kvarta sáran undan einelti Íslendinga gagnvart sér. Hann hafi meira segja þurft að flýja land vegna þessa. Núna er hann í forsvari þeirra sem halda eineltisfund á Austurvelli gagnvart Davíð Oddssyni. En slíka háttsemi kallar hann ekki einelti, heldur líkir því við að taka tappa úr baði. Manni verður hálf flökurt yfir flónshættinum í manninum.

Hagfræðingarnir og Evrópusambandið

Þeir eru ekki mjög margir hagfræðingarnir, sem við almúgafólkið fáum að hlusta á í fjölmiðlum landsins þessa daga um efnahagsvandann. Þeir eru satt best að segja misjafnir að gæðunum finnst mér (enda er hagfræðin nú engin raunvísindi) og má einn ónefndur þó eiga það að hann ber af öðrum. Hagfræðingarnir hafa flestir, á einhvern undarlegan hátt, verið sammála um það að einn af þremur bankastjórum Seðlabankans, sé alveg sérstakt efnahagsvandamál. Er engu líkara en að í þeim ágæta banka starfi engir hagfræðingar, eða þá í bönkum yfirleitt. En sannleikurinn er auðvitað sá að allir bankar heimsins og stjórnarstofnanir hafa verið kjaftfullir af hámenntuðum hagfræðingum. Samt er svona illa komið fyrir efnahagslífi veraldarinnar. Um orsakir skal ég ekki dæma, en við blasir að það er ekki vegna eina seðlabankastjórans á Íslandi nú, sem ekki státar af háskólagráðu í hagfræði.

Einkum hafa háskólahagfræðingarnir talið til bjargræðis, að Íslendingar þiggi strax aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lýsi yfir tafarlausri umsókn um EB aðild. Það er eins og að í þeirra hópi hafi gripið um sig múgsefjun og engin önnur sjónarmið eða rök beri að hlýða á. Meira að segja nestor íslensku hagfræðinganna, Jónas Haralz, tekur undir.

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp orð hans í Klemensarbók, en þar minnist hann á þann "lærdómshroka, sem greip um sig meðal hagfræðinga á fjórða og fimmta áratug aldarinnar." En þetta voru efnahagslega erfiðustu ár tuttugustu aldarinnar, ef góssentíð stríðsins er undaskilin. Nú vilja hagfræðingarnir taka ómakið af stjórnmálamönnunum, líkt og þá, er þeir lögðu bara til höft og áætlunarbúskap, sem einu færu leiðina, og segja EB aðild og stöðu í skjóli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einu færu leiðina. Hvers konar hugmyndaskortur er þetta eiginlega?

 

 


Við áttum aldrei séns!!

Miðað við niðurstöður í kjöri til öryggisráðs Sþ áttum við aldrei neina möguleika. Við sitjum bara uppi með mörg hundruð milljóna kostnað í gæluverkefni stjórnmálamanna og embættismanna. Það eru engin líkindi til þess að núverandi efnahagserfiðleikar landsins hafi haft nokkur áhrif á niðurstöðuna, svo nokkru nemi. Menn hafa bara vaðið áfram í villu og svima, slegið um sig á báða bóga, en ekki gert sér nokkra grein fyrir raunverulegri stöðu í þessari baráttu. Þegar raunveruleikinn rann upp fyrir mönnum fyrir nokkrum dögum síðan, hafa þeir komið á flot sögusögnum um efnahagsvandann, sem örsakavald. Hverja á að kalla til ábyrgðar fyrir dómgreindarleysið? Óska eftir tillögum.
mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við frekari vitnanna við?

Þá höfum við það svart á hvítu að Evrópusambandinu er slétt sama um afdrif og öryggi Íslendinga. Tal um að stjórnvöldin verði að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar, þýðir á mannamáli að næstu þrjár kynslóðir Íslendinga verði bundnar á skuldaklafa. Herkostnaður Íslendinga af útrásinni er orðinn nægur, svo ekki verði nú farið að borga stríðsskaðabætur að auki.
mbl.is Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einskis virði stuðningsyfirlýsingar

Skyldi Georg Brown hinn breski vera með í stuðningsyfirlýsingunni. Þetta er nú meiri loddaraskapurinn í þessu Evrópusambandi. Sannleikurinn er sá að þeim er alveg sama um okkur, en vildu gjarnan hafa okkur innanborðs þar sem þeir gætu hætt okkur og smánað og látið okkur ganga í óhreina tauinu af stóru þjóðunum, líkt og niðursetningar væru. Við eigum strax að snúa okkur að alefli að Norðmönnum, því þar eigum við vini, þrátt fyrir allt, og taka upp norska krónu, sé þess nokkur kostur.
mbl.is ESB-leiðtogar styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er gjaldeyrisþurrð?

Talsmenn atvinnulífsins tala nú daglega um vandann, sem skapast hefur vegna gjaldeyrisskorts. Ekki er hægt að flytja inn vörur sem fyrr og Seðlabankinn forgangsraðar eftir vöruflokkum. Hvað er eiginlega að ske? Ég man ekki betur en að málsmetandi menn hafi sagt gjaldeyrisforða þjóðarinnar svo öflugan fyrir örfáum vikum síðan, að hægt væri að flytja vörur til landsins í níu mánuði, án þess að nokkur útflutningur kæmi á móti.

Getur einhver sagt mér hvað fór úrskeiðis? Var verið að skrökva að mér allan tímann? Nú kemst ég ekki í vetrarfrí til útlanda (tek aldrei sumarfrí), vegna þess að ég get ekki treyst erlendum hraðbönkum um afgreiðslu og ekki vil ég kaupa gjaldeyri á uppsprengdu verði á svörtum markaði.

Hverjir fluttu gjaldeyrinn úr landi með slíkum hraða, að níu mánaða forðinn hvarf á tveimur vikum?


Lifir ríkisstjórnin af gjaldeyris- og bankakreppu?

Ýmislegt bendir til þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks muni ekki lifa af djúpa gjaldeyris- og bankakreppu. Í stað þess að vera samstíga í því að leita allra mögulegra leiða til þess að  leysa vandann í bráð, einblínir annar samstarfsflokkurinn á framtíðarlausn, ef lausn skyldi kalla, sem liggur í inngöngu í EB og upptöku evru. Í þeim kringumstæðum sem nú ríkja er allt tal um inngöngu í EB og upptöku evru, helbert lýðskrum, til þess fallið að gefa almenningi falsvonir. Vandi Íslands er bráðavandi, en ekki framtíðarvandi. Greini stjórnmálamennirnir ekki þarna á milli mun illa fara.

Sjálfstæðisflokkurinn á strax að taka upp leynilegar trúnaðarviðræður við Vg, Framsóknarflokk og Frjálslyndaflokkinn í því skyni að leysa bráðavandann. Samfylkingin ætlar ekki að leggjast á árarnar með þjóðinni; hún ætlar að nota ástandið til þess að sigla okkur til Brussell.


Fjárlög með halla

Embættismenn ráðuneytanna eru núna væntanlega allan sólarhringinn að endurskoða fjárlagafrumvarpið, sem lagt var fram á dögunum með 56 milljarða halla. Ástæðan er augljós - við höfum ekki efni á svona fjárlögum. Skikki verður ekki komið á þjóðarbúskapinn nema myndarlega verði skorið niður í heilbrigðis- og menntamálum landsmanna. Það þarf ekki endilega að þýða að þjóðin verði heilsuverri eða menntunarsnauðari, en í þessum málaflokkum liggja stórútgjöld ríkissjóðsins. Margt annað má gera í sparnaðarskyni, sem ekki er svo sársaukafullt að framkvæma, en þarf lagabreytingar til. Þjóð í krítískum efnahagsvanda getur hæglega lagt niður feðraorlof og sparað nokkra milljarða, þótt mæður haldi orlofsrétti sínum, enda er ungum feðrum hollt að halda sér að vinnu. Afnema má lög um Jafnréttisstofu og spara nokkra tugi milljóna, enda starfar hún á grundvelli pólitískrar hugmyndafræði, sem í reynd er innihaldslaus merkingarleysa, engum til gagn, nema þeim sem þar starfa. Eins má tímabundið afnema lög um umhverfismat, svo gerlegt sé að flýta nauðsynlegum framkvæmdum í landinu, sem kalla á erlenda fjárfestingu.

Og svo er bara að vona að Ísland tapi kapphlaupinu um sæti í Öryggisráðinu, því slík niðurstaða sparar mörg hundruð milljónir af skattfé. Margt annað má spara í útgjöldum hins opinbera, sem er bara fáránlegt splæs og þar gætu sveitarfélögin aldeilis tekið tak.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gústaf Níelsson
Gústaf Níelsson
Er andvígur hvers kyns gervilýðræði og lýðskrumi stjórnmálamanna, óháð flokkum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband